Norsk loðnuskip eru búin að veiða 176.000 tonn af loðnu á vertíðinni af 275 þúsund tonna kvóta. Þau eiga því tæp 100.000 tonn óveidd.
Þrátt fyrir að veður hafi hamlað loðnuveiðum í Barentshafi rétt eins og við Ísland að undanförnu veiddust eigi að síður 50.000 tonn í síðustu viku, þar af fóru 30.000 tonn í manneldisvinnslu og 20.000 tonn til bræðslu.
Í frétt á vef Norska síldarsölusamlagsins segir að hrognafylling loðnunnar sé nú rúmlega 20%, stærð loðnunnar góð og áta í fiskinum ekki til vandræða.
Meðalverð á loðnu til manneldis er 2,44 NOK ( 50 ISK) og til mjöl- og lýsisvinnslu 2,32 NOK (48 ISK).