Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, segir í aðsendri grein sem birt er á norska sjávarútvegsfréttavefnum www.fiskaren.no, að það sé deginum ljósara að norsk stjórnvöld hafi engan vilja til þess að semja við strandríkin um sameiginlega nýtingu á deilistofnum eins og makríl, síld og kolmunna.

Í grein sinni vitnar Heiðrún Lind til skrifa Auduns Maråk, framkvæmdastjóra norskra útgerðarmanna, þar sem hann segir forsendu viðræðna að þær byggist á svæðistengingu (sonetilhørighet). Með svæðistengingu er átt við hversu stór hluti fiskistofns er í fiskveiðilögsögu einstakra ríkja og hve lengi stofninn er í fiskveiðilögsögu viðkomandi ríkja.

„Norsk stjórnvöld einfaldlega neita að átta sig á því að svæðistenging getur aldrei verið eina viðmiðið, jafnvel þó hún geti verið mikilvægur hluti í stærri mynd. Með svæðistengingu er einfaldlega litið fram hjá mikilvægum þáttum. Göngumynstur fiskistofna er stöðugt að breytast meðal annars vegna umhverfisáhrifa sem leiða til hækkandi sjávarhita. Það er því ekki hægt með óumdeilanlegum og nákvæmum hætti að sannreyna hvar fiskistofnar halda sig og um leið er það líka vandkvæðum bundið að leggja mat á og samræma þær upplýsingar sem liggja fyrir hverju sinni. Staðsetning stofnanna í dag getur verið allt önnur en hún var fyrir einu, fimm eða tíu árum og í þessu felast engar upplýsingar um hvar þeir munu halda sig í framtíðinni. Auk þess er það staðreynd að óviss og ófullnægjandi mæligögn geta leitt til mikillar ónákvæmni í mati og útreikningum.“

Ekkert tillit tekið

Með svæðistengingu sé ekkert tillit tekið til þess hvar fiskistofnar hrygni, hvar þeir alist upp, hvar fæðuöflun þeirra fer fram, hvar þeir þyngjast, hvað strandríkin leggi af mörkum til nauðsynlegra rannsókna á fiskistofnum, og hve háð einstök strandríki eru háð veiðum úr þessum stofnum. Af þessum sökum séu það mistök að hengja sig í svæðistengingu og það sé ávísun á áframhaldandi deilur milli ríkjanna nú og til framtíðar. Þetta hafi íslensk stjórnvöld ítrekað bent á og það hafi vísindamenn einnig gert.

Fiskeribladet segir að Íslendingar hafi áður lagt mál fram með þessum hætti. Það hafi gerst þegar samkomulag náðist um skiptingu á norsk-íslensku vorgotssíldinni árið 2006. Þá hafi forystumenn í norskum sjávarútvegi samið við Íslendinga og tekið tillit til þess hve landið væri háð síldveiðum.

Sögulegur grunnur

Audun Maråk, framkvæmdastjóri samtaka norskra útgerðarmanna, segir í athugasemdadálki Fiskeribladet að í umræðum um sanngjarna skiptingu þessara stofna séu Íslendingar áræðnir að vísa til þess hve þeir séu háðir þessum veiðum.

„Makríllinn flæktist fyrir nokkrum árum inn í íslenska lögsögu. Samkvæmt alþjóðlegum rannsóknum dvelur lítill hluti makrílstofnsins á Íslandsmiðum í stuttan tíma á árinu. Þetta var og eru ekki fiskveiðar sem Ísland er háð efnahagslega,“ segir  Maråk.

Maråk heldur því líka fram að makríll hrygni að miklu leyti í norskri lögsögu og haldi sig þar í fæðuleit. Nær 100% af makrílkvóta norskra uppsjávarflotans veiðist í norskri efnahagslögsögu. Makrílveiðar Norðmanna byggi á sögulegum grunni ólíkt „nýliðunum“ Íslendingum. Þetta er reyndar öndvert við það sem kemur fram á vef Hafrannsóknastofnunar þar sem segir að makríll byrji að hrygna í febrúar við strendur Spánar og Portúgals. Með hækkandi hitastigi fram á vor flytjist hrygningin smám saman norður með Evrópu. Hún nái venjulega hámarki í apríl-maí úti fyrir vesturströnd Írlands og suðvesturströnd Englands, en á sama tíma sé töluverð en dreifðari hrygning allt frá Biscayaflóa og norður fyrir Færeyjar. Á nyrstu svæðunum hefjist hrygningin seinna og stendur fram í júlí.