Enn dregur úr markaðshlutdeild norsks saltfisks í Brasilíu. Fyrir fáeinum árum voru Norðmenn með um 95% alls markaðarins fyrir saltfisk í landinu en það hlutfall er nú komið niður undir 50%. Norska sjávarafurðaráðið hvetur norska útflytjendur til að stokka spilin á ný og finna lausnir á minnkandi markaðshlutdeild. Hana má m.a. rekja til þess að norskir framleiðendur selja einungis þurrkaðan saltfisk í heilum flökum til Brasilíu. Á sama tíma hefur úrval unninna salfiskafurða aukist sem henta betur neytendum til matreiðslu. Þar er um að ræða útvötnuð, roð- og beinlaus hnakkastykki sem eru tilbúin til matreiðslu sama dag og þau eru keypt. Norskir framleiðendur hafa ekki treyst sér til að framleiða sambærilega vöru á samkeppnishæfu verði og bera við mun hærri launakostnaði í Noregi en t.a.m. í Kína sem flytur orðið mikið magn saltfisks til Brasilíu. Einnig hefur aukist útflutningur á unnum saltfiski frá Portúgal til Brasilíu. Frá 2012 til 2013 minnkaði útflutningurinn um 239 tonn, fór í 852 tonn á árinu 2013 sem er minnsta magn frá árinu 2005. Á sama tíma lækkaði meðalverð um 6,20 norskar krónur, fór úr 39 kr. á kíló 2012 í 32,80 kr. á árinu 2013.
Gunnar Haagensen, talsmaður norska sjávarafurðaráðsins, segir enn sé tími fyrir norska saltfiskiðnaðinn að verja stöðu sína. „Við verðum að nýta styrk okkar. Almenningur í Brasilíu veit að saltfiskurinn er upprunninn í Noregi og margir eru þar beinlínis hræddir við mat sem er upprunninn í Kína. Vandamálið er að neytendur geta ekki slegið því föstu að varan sé norsk því hún er ekki merkt. Við þurfum að leggja áherslu á upprunann og tenginguna á milli ekta saltfisks og Noregs,“ segir Haagensen.