Norðmenn binda miklar vonir við veiðar á snjókrabba í Barentshafi og telja vísindamenn veiðin geti orðið á milli 25 til 75 þúsund tonn á ári á næstu tíu árum.

Snjókrabbi fannst fyrst á þessu hafsvæði við eyjuna Novaja Semlja árið 1996.

„Þá fundust fimm eða sex krabbar austan við Novaja Semlja. Nú benda útreikningar rússneskra starfsbræðra okkar að snjókrabbastofninn nái næstum upp í helminginn af rækjustofninum að stærð, og rækjustofninn er gríðarlega stór,“ segir Jan Sundet hjá norsku hafrannsóknastofnuninni.

Sundet segir að á næstu tíu árum geti veiði á snjókrabba hlaupið á 25 til 75 þúsund tonnum árlega. Hann segir að aflaverðmætið geti orðið álíka og af þorskveiðum.

Norskir vísindamenn hafa áhyggjur af aukinni útbreiðslu snjókrabba og annarra flökkutegunda, eins og kóngakrabba, á þessum slóðum. Þeir telja að snjókrabbastofninn telji mörg hundruð þúsund tonn. Þeir óttast að útbreiðslusvæði hans stækki og nái norður og vestur fyrir Svalbarða. Um leið stækki stofninn enn verulega.

Í norska sjávarútvegsblaðinu Fiskaren er bent á að þrátt fyrir stórkostlega möguleika á þessu sviði hafi norsk stjórnvöld einungis veitt 275.000 norskra króna, um 6 milljónum íslenskra króna, til rannsókna á útbreiðslu snjókrabba. Blaðið hefur það eftir Sundet að mikil þversögn felist í þessu þar sem snjókrabbi, ekki síður en aðrar flökkutegundir eins og kóngakrabbi, geti haft gríðarleg umhverfisáhrif á viðkvæmt vistkerfi Norður Íshafsins.