Mikil ótíð hefur hamlað kolmunnaveiðum Norðmanna á alþjóðlega hafsvæðinu vestur af Írlandi. Í síðustu viku rofaði loksins til og þá veiddu 28 norsk skip samtals 44.300 tonn sem er mesti vikuafli Norðmanna síðan árið 2008.
Af þessum afla veiddust 37.000 tonn á aðeins þremur sólarhringum. Sæmilega hefur gengið að losna við aflann og hefur löndunarbið verið mest um einn sólarhringur. Megnið af aflanum hefur farið í bræðslu. Fyrir aflann sem landað var í Killybegs á Írlandi voru greiddar 1,27 NOK á kílóið (24 ISK) en verksmiðja í Danmörku greiddi 1,61 NOK (30 ISK) fyrir kílóið.
Á þessum vetri hafa Norðmenn veitt um 100.000 tonn af kolmunna á alþjóðlegu hafsvæði á þremur vikum sem kallast gott miðað við tíðarfarið. Gert er ráð fyrir að norskum skipum fjölgi á kolmunnaveiðunum á næstunni vegna þess að ekki hefur enn samist um gagnkvæmar veiðar Norðmanna og ESB í lögsögum ríkjanna.
Þetta kemur fram á vef norska síldarsölusamlagsins í dag.