Norðmenn og Rússar hafa ákveðið að auka samstarf sitt á sviði hafrannsókna og hyggjast síðar á árinu setja á laggirnar starfshóp til að stilla saman strengina.
Starfshópurinn á að tengja saman þau gögn sem norskir og rússneskir vísindamenn hafa aflað og móta sameiginleg rannsóknarverkefni.
Það er Havforskningsinstituttet, norska hafrannsóknastofnunin, sem greinir frá þessu á fréttavef sínum.
Af Rússlands hálfu er verið að gera þær breytingar á fyrirkomulagi hafrannsókna að þær verða nú allar settar undir sameiginlega yfirstjórn í Moskvu, en hingað til hefur hvert hafsvæði haft sérstaka stofnun sem sinnt hefur hafrannsóknum þar.
Alls er þarna verið að tengja saman 28 rannsóknarstofnanir á sviði bæði hafrannsókna og ferskvatnsrannsókna, og verða starfsmenn þeirra samtals um fimm þúsund.