Norðmenn og Færeyingar hafa gengið frá fiskveiðisamningi fyrir árið 2017 um gagnkvæmar veiðiheimildir.
Samningurinn veitir norskum skipum rétt til að veiða 2.000 tonn af löngu/blálöngu í færeyskri lögsögu, 1.700 tonn af keilu, 567 tonn af ufsa og 800 tonn sem meðafli í öðrum tegundum. Þá fær Noregur einnig 4.979 tonna makrílkvóta sem norsk skip geta einnig veitt á heimamiðum eða á alþjóðlegu hafsvæði.
Í hlut Færeyinga koma 4.410 tonn af þorski í norskri lögsögu, 1.025 tonn af ýsu, 500 tonn af ufsa og 200 tonn í öðrum tegundum sem meðafli.
Þar að auki geta færeysk skip veitt allt að 4.000 tonn af þorski og 350 tonn af ýsu í norskri lögsögu af þeim kvóta í Barentshafi sem Færeyingar fá í samningum við Rússa.
Loks mega norsk skip taka allt að 34.800 tonn af kolmunnakvóta sínum í færeyskri lögsögu á árinu 2017.