Loðnuveiðar norskra skipa við Ísland mega hefjast í dag, 30. janúar ,og stendur vertíðin til 22. febrúar að því er fram kemur í frétt á vef norska síldarsamlagsins.

Eins og fram hefur komið í Fiskifréttum hafa norsk skip tryggt sér heimildir til að veiða 40 þúsund tonn af 57 þúsund tonna heildarkvóta í loðnu. Norsku skipin geta veitt kvóta sinn í grænlensku lögsögunni, íslensku lögsögunni og við Jan Mayen ef svo ólíklega vildi til að loðnan léti sjá sig þar.

Í gegnum samning við ESB fá Norðmenn tvo þriðju hluta af grænlenska loðnukvótanum og sömuleiðis fá þeir tvo þriðju af loðnukvóta Íslands í gegnum Smugusamninginn.

Á síðasta ári máttu norsk skip veiða 58.326 tonn af Íslandsloðnu.