Samtök norskra útvegsmanna (Fiskebåt) segjast á vefsíðu sinni hafa vísbendingar um að íslenskir rækjutogarar hafi stundað umdeildar grálúðuveiðar í Smugunni í Barentshafi. Hafa samtökin beðið norska sjávarútvegsráðuneytið um að kanna málið og gera grein fyrir því hvaða reglur gildi um íslenska rækjutogara í Smugunni hvað varðar skiljur og yfirpoka á rækjuveiðum.
Þeir nefna dæmi af íslenskum rækjutogara. Hann hafi landað 395 tonnum af rækju í Noregi 19. Mars sl. eftir veiðar í Smugunni. Skipið hafi síðan haldið aftur til veiða í Smugunni og landað hinn 24. apríl á Íslandi 304 tonnum af rækju, 245 tonnum af grálúðu, 2 tonnum af þorski og 400 kílóum af skrápflúru. Togarinn sem hér um ræðir er Brimnes RE.
Hafi einhver vafi leikið á reglum um skiljur og yfirpoka á rækjuveiðum í Smugunni virðist málið nú vera úr sögunni því 30. maí síðastliðinn birti íslenska sjávarútvegsráðuneytið reglugerð byggða á samþykktum NEAFC (NA-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar) þess efnis að íslenskum skipum væri óheimilt á samningssvæði NEAFC utan lögsögu ríkja að veiða grálúðu en hún er nefnt á lista yfir fjölmargar djúpsjávartegundir sem þessar reglur gilda um.