Norska sjávarútvegsráðuneytið hefur gefið út 100.000 tonna makrílkvóta fyrir norsk skip á næsta ári. Í frétt á vef ráðuneytisins er sagt að úr því að samningar hafi ekki náðst milli strandríkja um stjórn veiða úr makrílstofninum á árinu 2013 og viðræðum Noregs og ESB sé ekki lokið sé þessi kvótaákvörðun Norðmanna ákveðin til bráðabirgða.
Bróðurparturinn af þessum 100.000 tonnum fer til nótaflotans en strandveiðiflotinn fær 26.000 tonn, togarar tæplega 4.000 tonn og tekin eru frá 4.650 tonn til rannsókna- og kennslu og 1450 tonn í beitu.