Norðmenn fluttu út sjávarafurðir fyrir 13,4 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2013 (um 287 milljarða ISK). Þetta er svipaður útflutningur og var á sama tímabili á síðasta ári.

Mikil aukning varð í útflutningsverðmæti á laxi og laxaafurðum vegna verðhækkana. Hins vegar minnkað verðmæti afurða úr villtum fiski. Ekki hafa safnast birgðir af þorskafurðum svo neinu nemi þrátt fyrir stórauknar veiðar. Hins vegar lækkaði þorskurinn töluvert í verði.

Laxinn er verðmætasta fiskafurð Norðmanna. Fluttar voru út laxaafurðir fyrir 8,2 milljarða króna (175 milljarða ISK) á fyrsta ársfjórðungi 2013 sem er 22% aukning verðmæta. Meðalverð á laxi í mars var 37,69 krónur á kíló (807 ISK) en var í mars í fyrra 28,34 krónur á kíló (606 ISK).

Samdráttur varð í verðmæti útfluttra afurða uppsjávarfisks. Á fyrsta ársfjórðungi voru fluttar út síldarafurðir fyrir 812 milljónir króna sem er 48% samdráttur frá sama tímabili í fyrra. Makrílútflutningur nam 478 milljónum sem er 39% samdráttur.

Verðlækkun varð á þorski. Útflutningur á þurrkuðum saltfiski var 745 milljónir og minnkaði um 16% frá sama tíma í fyrra. Útfluttur saltfiskur var 282 milljónir sem er 13% samdráttur.

Frystur þorskur skilaði 419 milljónum í útflutningsverðmæti en þar er einnig um samdrátt að ræða, eða 11%.

Ljósi punkturinn er að útflutningur á ferskum þorski og ferskum þorskafurðum nam 490 milljónum á fyrsta ársfjórðunginum og jókst um 21% frá sama tímabili á síðasta ári.