Norðmenn hafa ekki síður en aðrir áhyggjur af því hvaða áhrif innrás Rússa í Úkraínu muni hafa. Allt bendir til þess að norskur sjávarútvegur verði fyrir höggi enda hafa Norðmenn verið í töluverðum samskiptum við Rússa í sjávarútvegi og samstarf hefur verið milli þjóðanna í hafrannsóknum.

Úkraína hefur einnig verið mikilvægur markaður fyrir norskar sjávarafurðir, ekki síst eftir að Rússar lokuðu á innflutning í kjölfar refsiaðgerða sem Evrópuríki samþykktu eftir að Rússar lögðu undir sig Krímskaga árið 2014.

Á síðasta ári seldu Norðmenn sjávarfang til Úkraínu fyrir 2,2 milljarða norskra króna, sem samsvarar um það bil 33 milljörðum íslenskra króna. Bróðurparturinn af því er eldislax, en einnig bæði síld og makríll.

Um þetta allt hefur verið töluvert fjallað í norskum fjölmiðlum, meðal annars í Fiskeribladet.

Áhætta

Audun Maråk, framkvæmdastjóri útgerðasamtakanna Fiskebåt í Noregi, ráðleggur norskum skipum að veiða ekki í rússneskri landhelgi á næstunni: „Við lítum svo á að það sé viðbótaráhætta fólgin í því að norsk skip geti lent í vandræðum við veiðar á rússnesku svæði, og það geti orðið erfiðara en áður fyrir utanríkisþjónustunna að veita aðstoð í þeim aðstæðum.“

„Við verðum að taka ákvörðun fljótt um það hvort við viljum stöðva móttöku á fiski og draga úr framleiðslunni til þess að sitja ekki uppi með miklar birgðir. Við erum nú þegar með um það bil 5.000 tonna lager,“ hefur Fiskeribladet eftir Arne Mathisen, framkvæmdastjóra Lofoten Viking á Værøy.

„Sem stendur höfum við þó meiri áhyggjur af íbúum Úkraínu en því hvernig viðskiptunum reiðir af,“ hefur Intrafish eftir Trond Davidsen, aðstoðarframkvæmdastjóra Sjømat Norge.