Norsk stjórnvöld íhuga nú að grípa til harðari aðgerða gegn Íslendingum og Færeyingum vegna makríldeilunnar. Þetta upplýsti Kristine Gramstad ráðuneytisstjóri í norska sjávarútvegsráðuneytinu á ársfundi Norska síldarsölusamlagsins í Álasundi í dag.
Eftirfarandi aðgerðir eru til athugunar:
- Uppsögn Smugusamningsins milli Íslendinga og Norðmanna.
- Bann við veiðum íslenskra og færeyskra skipa í norskri efnahagslögsögu.
- Bann við öllum innflutningi á makrílafurðum frá Íslandi og Færeyjum.
Gramstad sagði að þessu til viðbótar fylgdist norska stjórnin grannt með þeirri vinnu sem fram færi innan Evrópusambandsins sem miðaði að viðskiptahindrunum gagnvart Íslandi og Færeyjum.
,,Ég vona að Ísland og Færeyjar leggi fram raunhæfari kröfur í málinu þannig að hægt verði að finna lausn á deilunni sem fyrst,“ sagði norski ráðuneytisstjórinn.
Frá þessu er skýrt á vef samtaka norskra útvegsmanna.