Nýr 60 metra langur viðlegukantur var vígður við Norðfjarðarhöfn í gær þegar Birtingur NK kom til hafnar. Norðfjarðarhöfn er ein umsvifamesta höfn landsins og aflaverðmæti sem fóru um höfnina í fyrra var rúmir 15 milljarðar króna.
Stækkun á Norðfjarðarhöfn er yfirstandandi og miðar framkvæmdin að því að gera höfnina rýmri og aðgengilegri fyrir stærri skip.
Síðustu ár hefur verið landað yfir 200 þúsund tonnum í höfninni. Það sem af er ári hefur verið landað 97 þúsund tonnum í Norðfjarðahöfn.
Vertíðin er komin vel af stað í Neskaupstað en Beitir NK var að ljúka löndun á 480 tonnum í fiskiðjuverið og Börkur NK er að landa 460 tonnum. Einnig er Vilhelm Þorsteinsson að landa afla sínum, um 700 tonnum, þar af 500 tonnum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar. Barði NK er væntanlegur til löndunar á morgun með fullfermi af makríl en hann hefur verið á miðunum utan Reykjaness.
Sagt er frá þessu á vef Síldarvinnslunnar, www.svn.is.