„Það er búið að aflýsa nú þegar nokkuð stæðilegum verkefnum. Ég var meira að segja búinn að senda innborgunarreikning fyrir öðru þeirra en er að fella hann niður,“ segir Gunnar Óli Sölvason, framkvæmdastjóri Micro/Klaka, um áhrif fyrirhugaðrar hækkunar veiðigjalds á starfsemina.

Tæknifyrirtækin Micro og Klaki sameinuðust í febrúar og þar starfa nú að sögn Gunnars Óla 40 til 45 manns sem eru uggandi vegna stöðunnar enda viti mannskapurinn hvaðan stór hluti tekna fyrirtækisins komi. „Árin hér á undan eru búin að vera frekar glötuð með vexti skrúfaða í botn að óþörfu og stríð í Rússland auk annars. Og það sniðugasta sem þeim dettur í hug núna er að bæta þessu við. Þannig að ég er ekkert sérlega kátur,“ segir hann.

Aðrar atvinnugreinar ekki fái sömu meðferð

Áðurnefndar tvær afpantanir segir Gunnar Óli sennilega aðeins byrjunina.

„Menn voru bara að fá upplýsingar um þetta í síðustu viku og þurfa að fara yfir úr hverju þeir hafa að moða. Það virðist sama hvaða dynti stjórnmálamenn eru með í höfðinu varðandi að eyða peningum sem þeir ekki öfluðu sjálfir að alltaf er það skynsamlegasta leiðin að sækja þá peninga á útgerðarfélögin,“ segir Gunnar Óli. Hér séu fleiri atvinnugreinar sem ekki fái sömu meðferð. Það sé mjög skrítið.

Menn sem hafi kjark

„Menn þora ekki að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu og þora ekki að setja komugjald á farþega. Grátkór fyrirtækja í ferðaþjónustu hefur náð að koma í veg fyrir það fram að þessu. En það eru allir tilbúnir að pönkast á útgerðinni. Menn ættu að hugsa um það hvað það er sem hefur skapað lífsgæðin í þessu landi og komið okkur ítrekað úr vandræðum. Það eru menn sem hafa kjark og þor til að sækja sjóinn og draga björg í bú,“ segir Gunnar Óli.

Áðurnefndar afpantanir ráða að sögn Gunnars Óla alls ekki úrslitum með reksturinn hjá Micro/Klaka. Afleiðingarnar þurfi lengri tíma til að koma fram.

„Menn voru að sjá fram á bjartari tíma núna þegar vextirnir eru farnir að lækka en þá kemur þetta,“ segir Gunnar Óli. Erfiðleikarnir haldi því áfram. „Menn munu fresta verkefnum og menn munu skera niður í fjárfestingum.“

Hvernig væri að sammælast um að láta þetta næstu tíu árin í friði?

Gunnar Óli minnir á að fyrirtæki eins og Micro/Klaki, Kapp og Vélfag hafi vaxið úr þeim jarðvegi sem fjárfestingar sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi skapi. Þau hafi með aðstoð og í samvinnu við sjávarútvegsfyrirtækin þróað búnað sem jafnvel skapi útflutningstekjur.

„Þannig að ég held að þetta sé vanhugsað,“ segir Gunnar Óli og auglýsir eftir því að sjávarútvegi sé búið stöðugra umhverfi.

„Ég geri mér ekki vonir um að menn taki af skatta sem eru þegar komnir á en hvernig væri að sammælast um að láta þetta næstu tíu árin í friði og leyfa mönnum að átta sig á umhverfinu og finna út úr því að búa til peninga úr stöðunni sem er búin er til fyrir þá?“