Stjórnvöld í Nígeríu hafa lýst því yfir að þau hyggist grípa til aðgerða til þess að draga úr innflutningi til landsins, meðal annars á fiskafurðum. Tilgangurinn sé sá að styrkja innlenda framleiðslu.
Nígería er eitt af mikilvægari viðskiptalöndum Íslendinga með sjávarafurðir og nam útflutningurinn héðan um 16 milljörðum króna á síðasta ári, samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofunnar. Útflutningurinn er aðallega þurrkaðar afurðir og frystur makríll.
Í frétt á vef færeyska útvarpsins segir að nígeríska stjórnin hyggist ná markmiðum sínum með því að setja innflutningskvóta og hækka tolla. Markmiðið sé að draga úr fiskinnflutningi um 25% á ári næstu árin.
Viðskiptaráð Íslands og utanríkisráðuneytið fylgjast með þróun þessara mála. Haraldur Ingi Birgisson hjá Viðskiptaráði segir í viðtali við Fiskifréttir að málið sé enn á umræðustigi í Nígeríu og ekkert muni gerast á allra næstu vikum.
Sjá nánar í Fiskifréttum í dag.