Þörungasvif í Noregshafi hefur aukist á ný eftir að botninum var náð 2009. Þar með má búast við að niðursveiflan í síldarstofninum stöðvist, að því er fram kemur á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar.
Greint er frá niðurstöðum úr leiðangri sem farinn var til að kanna ástand sjávar. Fæðuframboð hefur aukist sem skapar betri skilyrði fyrir helstu uppsjávarfiska. Rifjað er upp að ekki hafi komið fram góður árgangur í norsk-íslensku síldinni síðan árið 2004.
Metárið 2007 mældust um 20 milljónir tonna af síld, makríl og kolmunna í Noregshafi en á sama tíma minnkaði þörungasvifið um helming. Í framhaldinu var óttast að Noregshaf gæti ekki fætt alla þessa mikilvægu nytjastofna. Síðan þá hefur makríllinn reyndar vaxið en síldin dalað. Núna er staðan betri. Engin spurning er að áfram er nóg af makríl, kolmunnastofninn er á uppleið og nýliðun í síld er komin yfir varúðarmörkin.