Niðursuðuverksmiðja tekur til starfa á Kópaskeri innan tíðar. Þar verður til að byrja með soðin niður þorskalifur - og gert er ráð fyrir að tíu til fimmtán störf skapist á svæðinu, að því er fram kom í hádegisfréttum RÚV.
JS Seafood, sem rekur sams konar vinnslu í Grindavík, ákvað að hefja starfsemi á Norðausturlandi og verða afurðir af svæðinu nýttar í niðursuðu.
„Við keyptum þetta hús fyrir nokkrum mánuðum af Byggðastofnun, gamla rækjuverksmiðju, sem hentaði vel fyrir starfsemina,“ segir Jón Örn Jakobsson, framkvæmdastjóri JS Seafood í samtali við útvarpið. „Þetta er náttúrulega bara niðursuðuverksmiðja og það er hægt að sjóða niður fleiri hluti, svo sem makríl eða síld eða eitthvað annað og þetta getur stækkað og orðið ansi stórt ef rétt er haldið á spöðunum.“
„Þetta verða svona tíu til fimmtán störf til að byrja með og svo kannski einhver afleidd störf,“ segir Jón Örn. „Það væri ekki verra ef fólk flytti á svæðið, þetta er góður staður til að búa á. En væntanlega þurfum við að nota eitthvað af útlendingum til að byrja með.“