Hafrannsóknastofnun ráðleggur 32% niðurskurð í grásleppuafla fyrir yfirstandandi ár á grundvelli niðurstaðna úr stofnmælingu botnfiska í mars sem sýnir lægstu vísitölu síðan mælingar hófust 1985. Þetta kemur Landssambandi smábátaeigenda mjög á óvart.
Samkvæmt tillögu Hafrannsóknastofnunar verður upphafskvóti næsta árs aðeins 662 tonn en í ár 1.216 tonn. „Sá mikli niðurskurður sem Hafrannsóknastofnun leggur til kemur á óvart ef miðað er við fréttir af miðunum. Sjómenn á togurum hafa mikið orðið varir við grásleppu frá áramótum. Þá hefur veiði grásleppubáta á þessum tíma árs gengið mun betur en undanfarin ár. „Ég hef ekki upplifað aðra eins veiði á þessum tíma,“ sagði Ingólfur Árnason skipstjóri á Ásdísi ÞH. Dregin voru 78 net þriggja nátta, aflinn 8 tonn í tveimur löndunum. Alls 2.625 grásleppur,“ segir á heimasíðu LS.
Þar segir einnig að veiðst hafi frá áramótum 467 tonn af grásleppu, þar af 93 tonn í botnvörpu og 329 tonn í grásleppunet. Á sama tímabili í fyrra voru tölurnar 246 tonn, 46 tonn í botnvörpu og 181 tonn í grásleppunet. Veiði í grásleppunet sé þó varla samanburðarhæf sökum ólíkra reglna um veiðistjórn.