Meðalverð á heilli grásleppu á fiskmörkuðum hefur verið í kringum 370 kr. kílóið samkvæmt síðustu sölum og það þykir grásleppusjómönnum heldur rýrt í roðinu. Ingólfur Haraldsson á Drangsnesi, sem gerir út Benna ST, var kominn í brælustopp. Hann segir netabáta hafa fleytt rjómann af markaðnum fyrir grásleppuhrogn með meðafla sem hlypi á tugum tonna.

Samkvæmt upplýsingum frá Landssambandi smábátaeigenda hafa 53 grásleppubátar reynt fyrir sér á þessari vertíð og um 103 tonn verið seld á mörkuðum. Meðalverðið nú er 364 krónur fyrir kílóið af heilli grásleppu.

Væri vit í þessu ef. . .

Farið var að draga fyrstu netin 3. mars á Benna ST en svo voru netin tekin upp tíu dögum síðar. Netin hafa verið lögð norður með landinu allt frá Steingrímsfirði og norður eftir. „Menn vildu byrja fyrr en vanalega út af fersku hrognunum inn á Danmerkurmarkað. Það væri vit í þessu ef það væru bara bátar með grásleppuveiði á þessum veiðum. Það er ekki að hjálpa okkur að það hefur komið mikið inn á þennan markað frá neta- og dragnótarbátum sem eru að fiska grásleppu. Þeir ganga á lagið. Þeir eiga að sleppa grásleppu en á sama tíma er í lögum að ekki eigi að sleppa fisk. Þetta rekur sig á annars horn. Það má ekki landa grásleppu nema vera með grásleppuleyfi en ég veit ekki hve mörgum tonnum neta- og dragnótarbátar hafa landað inn á markaðinn áður en við fengum að veiða grásleppu,“ segir Ingólfur.

36 tonn áður en veiði hófst

Fyrir 1. mars, áður en veiðar þeirra með grásleppuleyfi máttu hefjast, höfðu veiðst tæp 36 tonn af grásleppu í net, dragnót og botnvörpu, samkvæmt tölum frá Fiskistofu. Það sem af er árinu er aflinn orðinn tæplega 200 tonn og er þá talinn með afli báta með grásleppuleyfi.

Tilraunarinnar virði

„Verð á grásleppu hefur snarlækkað og datt niður í um 200 krónur fyrir kílóið fyrir helgi og var síðast 364 krónur kílóið. Um leið og Danirnir eru mettir með fersk hrogn fer þetta í söltuð hrogn. Síðustu ár hefur varla verið hægt að gera út á þetta því verðið hefur verið 180-220 krónur fyrir kílóið fyrir grásleppu upp úr sjó. Ef það er lítil veiði þá er þetta ekki að gera sig,“ segir Ingólfur.

Nú má taka veiðihlé frá grásleppu og Ingólfur nýtti sér það. Hann segir óákveðið hvort farið verði í páskafrí núna eða á línu. Vanalega sé um þetta leyti loðna á svæðinu og línuveiðin dettur niður en staðan sé ekki þannig núna. Þorskurinn taki krókana þegar loðnan lætur ekki sjá sig og étur undan sjálfum sér. Það klóri sér allir í kollinum yfir breytingunum í lífríkinu.

„Við erum sammála því að þetta sé samt tilraunarinnar virði að hefja grásleppuveiðar svona snemma, sérstaklega vegna þess að okkur er heimilt að taka veiðihlé. En þetta kom mjög snöggt núna og fyrirvaralaust og kom þeim vel sem gátu græjað sig fljótlega í veiðarnar. En kannski ósanngjarnt fyrir hina sem höfðu gert önnur plön. Það hefði mátt hafa meiri fyrirvara á þessu en fyrirkomulagið sjálft er í ágætu lagi,“ segir Ingólfur.