„Ég frétti af því að danskt og sænskt skip væru á leið í loðnuleit Grænlandsmegin og það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því,” segir Geir Zoëga, skipstjóri á grænlenska uppsjávarskipinu Polar Amaroq sem grænlenska útgerðin Polar Pelagic AS gerir út. Polar Amaroq hafði verið eitt skipa í loðnuleit í grænlenskri lögsögu og fundið ágætar loðnulóðningar þar til stíf norðanáttin hrakti skipið á önnur mið.
Í byrjun vikunnar voru það við kolmunnaveiðar suður af Færeyjum hjá áhöfn Polar Amaroq og sagði Geir að hann biði þess að síld gengi inn í Síldarsmuguna og þá yrði reynt fyrir sér þar.
Vilja stóru síldina
„Við erum núna að skaka í einhverjum kolmunna hérna á milli Íslands og Færeyja meðan þetta veður gengur niður þarna fyrir vestan land. Það hafa verið brælur þarna undanfarið og virðist lítið lát ætla að verða á því. Við ætluðum að kíkja á síldina en hún er ekki ennþá komin inn í Smugu í miklu magni. Við viljum vera í stóru síldinni, ekki smásíldinni sem er núna í norsku lögsögunni og í Smugunni utan við norsku lögsöguna. Þetta er smár fiskur og ég hef ekki áhuga á honum. Þetta er 300 gramma fiskur en Norðmenn og Rússar eru samt að frysta þetta,” segir Geir.
Hann lætur vel af kolmunnaveiðinni og segir þetta ágætan fisk og Polar Amaroq er eitt skipa á Íslands-Færeyja hryggnum. Þeir fengu ein 210 tonn í byrjun vikunnar eftir 11 tíma hol.
„Þetta var fínasti fiskur og þetta kom mér á óvart. Ég er með frystiáhöfnina og var að pæla í því að frysta hann. En það fæst svo lítið fyrir þetta – það er varla nóg fyrir umbúðunum.”
Planið hjá Geir er að fara í Smuguna þegar síldin gengur þangað og fara svo í framhaldinu aftur vestur fyrir land að leita að loðnu. Síldarkvótinn sé ekki stór og hann gæti verið farinn aftur vestur í endaðan nóvember.
Loðnan að síga suður eftir
„Ég er bæði með loðnutroll og nót og er tilbúinn í allt. Ég er líka með síldar- og kolmunnaúthald og strákarnir voru að stríða mér með því hvort við ættum ekki að taka makríltrollið líka. Maður verður að vera klár í þetta og fljótur á svæðið þegar fjörið byrjar, ” segir Geir.
„Það var svolítið að sjá af loðnu þarna upp úr 20. október milli Íslands og Grænlands. Ég veit að Ísafoldin danska og sænski báturinn Car Mona eru á leið í grænlensku lögsöguna að reyna fyrir sér. Það verður áhugavert að fylgjast með þeim. Þeir mega vera þarna í gegnum samning ESB og Grænlands en þeir geta ekki farið yfir í íslensku lögsöguna. Ég á von á því að loðnan sé eitthvað farin að síga suður eftir núna. Hún heldur sig orðið meira eða minna í grænlensku lögsögunni þar til hún kemur upp að Íslandi til að hrygna. Við sáum talsvert af loðnu þegar við vorum þarna en þetta var ekki stór fiskur. Við fengum einhver 200 tonn sem við frystum. Það hefði vel verið hægt að veiða meira en ég hef engan áhuga á því að hreinsa upp ungviðið. Stærri loðnan hlýtur að vera inni í íslensku lögsögunni eða annars staðar. Við höfum verið þarna sennilega of snemma og loðnan átt eftir að skilja sig. Smáfiskurinn verður eftir og stærri fiskurinn fer annað.”