Íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi og öðrum atvinnugreinum hafa sýnt áformaðri endurnýjun alls björgunarskipaflota Slysavarnafélagsins Landsbjargar mikla velvild. Ráðgert er að fyrsta skipinu, Þór, verði siglt til Vestmannaeyja í ágústmánuði.

Skemmst er að minnast ríflega 142 milljóna króna styrks frá einum af aðal styrktaraðilum samtakanna, tryggingafélaginu Sjóvá, til smíði á fyrstu þremur bátunum. Örn Smárason, verkefnisstjóri sjóbjörgunar hjá Landsbjörgu, segir góðan gang í smíði fyrstu þriggja skipanna í KewaTec skipasmíðastöðinni í Kokkola í Finnlandi.

Örn Smárason, verkefnisstjóri sjóbjörgunar hjá Landsbjörgu
Örn Smárason, verkefnisstjóri sjóbjörgunar hjá Landsbjörgu

Áformin ganga út á að minnsta kosti 10 ný björgunarskip. Hvert þeirra kostar 285 milljónir króna. Ríkisstjórnin hefur ábyrgst greiðslu á helming kostnaðar við fyrstu þrjú skipin, alls 427,5  milljónir króna, og gert viljayfirlýsingu um greiðslu á helmingi af kostnaði við smíði á öðrum sjö bátum, alls tæplega einum milljarði króna.

Þór til Vestmannaeyja í ágúst

„Sjóvá hefur afhent okkur þessa upphæð og treystir okkur fyrir því að vel sé farið með peningana allt fram að því að skipin eru afhent. Aðalvélarnar fóru niður í fyrsta bátinn í fyrstu viku júní. Við vonumst til þess að hann verði klár til afhendingar á tímabilinu 8.-11. ágúst. Í framhaldinu verður honum siglt til Vestmannaeyja en það ræðst dálítið af veðri og aðstæðum hvaða dag hann kemur til Eyja,“ segir Örn.

Auk þess hefur Hafnarsjóðurinn í Vestmannaeyjum styrkt verkefnið um 45 milljónir króna. Landsbjörg hefur safnað í sjóð sem er eyrnamerktur endurnýjun björgunarskipaflotans, alls um 130 milljónir króna.

Upphaflega átti að afhenda Þór í júlímánuði en stríðið í Úkraínu hefur tafið fyrir afhendingunni. Leita þurfti að nýrri ljósavél og öðrum fjarskiptabúnaði og afhendingartíminn á ljósavélinni fór úr 12-16 vikum í 18 mánuði. Önnur ljósavél fékkst frá sama framleiðanda en hún var stærri en sú sem upphaflega var reiknað með. Næstu tvo báta í þessum áfanga á að afhenda á þessu og næsta ári og fara þeir til Siglufjarðar og Reykjavíkur.

Smíði björgunarskipanna er flókin vinna. Mynd/Landsbjörg
Smíði björgunarskipanna er flókin vinna. Mynd/Landsbjörg

Mörg vilyrði um styrki

„Við tökum á móti bátnum í Eyjum í ágúst og í framhaldinu ætlum við að leggja mat á stöðuna með tilliti til reynslunnar sem við fáum af Eyjabátnum. Við ætlum að sigla honum mikið fyrstu mánuðina. Við erum ennþá einungis með þrjá báta í hendi. Í haust þurfum við að breyta viljayfirlýsingu ríkisins um sjö báta til viðbótar í samkomulag. Að því loknu þurfum við að treysta enn frekar söfnunina sem við erum í, hvort sem hún miðist við næstu þrjá, fimm eða sjö báta.  Við erum í samtali við útgerðina, ferðaþjónustuna og ýmsa aðra aðila um að standa með okkur í þessu. En um leið gætum við þess að fara ekki fram úr okkur og passa upp á að verkefnið sé fjármagnað og það skaði ekki fjárhag félagsins.“

Örn segir vissulega blikur á lofti í heimsmálum og ríkisbókhaldið sé erfitt viðureignar í kjölfar heimsfaraldursins og nú vaxandi dýrtíðar um allan heim vegna innrásarinnar í Úkraínu. En þegar horft sé á verkefni Landsbjargar blasi nokkurn veginn við að verkefni af þessu tagi yrði mun kostnaðarsamara ef það væri ekki leitt af félaginu með öllu því sjálfboðaliðastarfi sem þar er lagt til og stuðningi útgerðarinnar út um allt land. Hvergi annars staðar í Vestur-Evrópu sé kostnaðar hins opinbera af svo miklu björgunarviðbragði gagnvart atvinnuútvegi jafn lítill og hér á landi.

„Við höfum fengið mörg vilyrði um styrki og við finnum mikinn velvilja í stóru sjávarútvegsbyggðunum, Grindavík, Vestmannaeyjum og víðar. Verkefnið sem við erum í núna og í haust er að breyta vilja í samkomulag, jafnt við ríkið og fyrirtæki. Við höfum mikla trú á verkefninu og bugumst ekki þótt fjármögnunin hafi reynst eilítið flóknari en við héldum. Við höldum svo lengi áfram sem þarf til að endurnýja öll 13 skipin.“

Nafnlaus framlög

Örn segir að velvilji fyrirtækjanna endurspeglist ekki einungis í peningagjöfum heldur einnig í sveigjanleika þeirra gagnvart starfsmönnum sem sinna björgunarstörfum. Það gerist jafnvel að menn séu að gera við gömlu björgunarskipin í vinnutíma sínum með vilja vinnuveitenda.

Aðalvélarnar fóru niður í fyrsta bátinn í fyrstu viku júní. Mynd/Landsbjörg
Aðalvélarnar fóru niður í fyrsta bátinn í fyrstu viku júní. Mynd/Landsbjörg

Norsku sjóbjörgunarsamtökin hafa farið þá leið að selja nöfn á skip sem þeir endurnýja. Þau bera því heiti gefanda, ýmist eintaklinga eða fyrirtækja. Örn segir allt annað uppi á teningnum hérna þar sem menn veigra sér við því að gefa upp fjárhagslega þátttöku sína í verkefnum af þessu tagi. Örn nefnir einn aðila sem hefur stutt björgunarsveitirnar um langt árabil til kaupa á búnaði og nemur sá stuðningur hundruðum milljóna króna. Sá aðili vill ekki láta nafns síns getið. Og þetta er ekki einsdæmi. Samtökunum berast fjöldi gjafa frá aðilum án þess að nöfn þeirra komi fram.

Sambærileg samtök í Noregi, Hollandi, Bretlandi og víðar sinna að stærstum hluta skemmtibátaflotanum í sínum löndum og oft er reksturinn fjármagnaður með áskriftum, ekki ólíkt t.d. FÍB-aðild hér heima. Hátt í 80% allra verkefna Landsbjargar á sviði sjóbjörgunar er vegna fiskiskipaflotans.

Sem fyrr segir hafa orðið miklar hækkanir á nánast öllu bara síðustu mánuði. Þannig hefur ál hækkað um 40% en skrokkar bátanna eru gerðir úr áli. Örn segir þessar miklu hækkanir ekki koma að sök því samningar um smíði á fyrstu þremur bátunum voru gerðir á föstu verði í íslenskum krónum. Skipasmíðastöðin tryggði sig sömuleiðis strax gagnvart hugsanlegum breytingum með efniskaupum þegar samningar voru undirritaðir.

Tölvuteiknuð mynd af útliti bátsins fullkláruðum. Aðsend mynd
Tölvuteiknuð mynd af útliti bátsins fullkláruðum. Aðsend mynd

Örn segir að næstu sjö bátar verði á umtalsvert hærra verði en fyrstu þrír bátarnir af þessum sökum. Líklega verði þó hagkvæmast að virkja áframhaldandi samstarf við KewaTec skipasmíðastöðina.