Mun minni þátttaka er í grásleppuveiðum það sem af er þessari vertíð en á sama tíma í fyrra og aflinn aðeins tæp 40% af því sem hann var þá um þetta leyti.
Að sögn Arnar Pálssonar framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda er algengt verð fyrir blaut hrogn 570-580 krónur kílóið sem er rétt rúmlega helmingur þess sem það var í upphafi vertíðar í fyrra og lægra en það komst lægst í á vertíðinni allri.
Þetta er í fyrsta skipti sem verð fyrir grásleppuhrogn á Íslandi er lægra en lágmarksverðið í Noregi, aðs sögn Arnar, en það er jafnvirði 636 íslenskra króna fyrir blaut hrogn.
Á vef Grænlandspóstsins kemur fram að nýbúið sé að semja um lágmarksverð á grásleppuhrognum í Grænlandi. Verðið er 24 danskar krónur að meðtöldum bónusum eða jafnvirði 508 króna kílóið.
Sjá nánar umfjöllun í nýjustu Fiskifréttum.