Fiskinnflytjendur á Humber-svæðinu  á Englandi hafa lýst yfir áhyggjum af hugsanlegu innflutningsbanni Evrópusambandsins á fiski frá Íslandi vegna makríldeilunnar.

Áhyggjurnar voru ræddar við Benedikt Jónsson sendiherra Íslands í Bretlandi og Stuart Gill sendiherra Bretlands á Íslandi á árlegum fundi þar sem fulltrúar innflytjenda á Humber-svæðinu og íslenskir fiskútflytjendur hittast.

Fiskinnflytjendur og talsmenn fiskvinnsla í Hull og Grimsby telja að ef verði af banni, sem taki til hvítfisks eins og þorsks og ýsu, muni það leiða til hruns í fiskvinnslu á svæðinu, að því er fram kemur í frétt á sjávarútvegsvefnu FISHupdate.com.

Steve Norton talsmaður Humbermanna segir að stjórnvöld í Bretlandi hafi verið upplýst um áhyggjur heimamanna. „Bann á innflutningi á fiski frá Íslandi mundi hafa skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir heimilin á svæðinu.“