Fyrir lok þessa árs verður helmingur allra uppsjávarskipa í Danmerku tengdur lokuðu gagnakerfi sem veitir stjórnvöldum óheftan aðgang að öllum aflaupplýsingum. Eftirlitsmyndavélar verða settar upp í skipunum.  Forgöngu að málinu hafa þó ekki stjórnvöld heldur DPPO, samtök útgerða uppsjávarskipa í Danmörku.

„Ég myndi nota orðið „skráningu“ frekar en „eftirlit“ um það sem málið snýst ,“ segir Mogens Schou, danskur ráðgjafi um alþjóðlega fiskveiðistjórnun og fyrrverandi ráðgjafi hjá danska sjávarútvegsráðuneytinu, að því segir í Fiskeribladet.

Um helmingur danska uppsjávarflotans er innan DPPO, (Danmarks Pelagiske Producentorganisation). Samtökin vilja með frumkvæði sínu auka rekjanleika í veiðunum, upplýsingagjöf til kaupenda, rannsóknaaðila og stjórnvalda með von um hærri kvóta til framtíðar, einfaldara regluverk og eftirlit.

Byggir á gervigreind

Þetta felur í sér að strax á þessu ári verða öll uppsjávarskip innan DPPO með eftirlitmyndavélar, skynjara og annan búnað sem skráir og sendir á rauntíma upplýsingar um afla til stjórnvalda. Tæknibúnaðurinn byggir á gervigreind og vélsjón sem skráir jafnt stærð fisks, tegundir og lífmassa.

Schou kveðst sjá mikla kosti samfara þessu frumkvæði. Sem aðalráðgjafi danska sjávarútvegsráðuneytisins á árunum 2008 til 2015 stóð hann að stórri rannsókn á skráningu á veiðum með myndavélum.

„Ég hef beitt mínum áhrifum til þess að danski uppsjávarflotinn velji þessa leið. Með því axlar hann ábyrgð á veiðunum en vinnur sér um leið inn ákveðið frelsi og sveigjanleika í útfærslu á veiðunum,“ segir Schou.

Með myndavélaeftirlitinu segir Schou felast möguleika á einfölduðu, fullgildu eftirliti sem geta leitt til aukins kvóta og frjálsara vals á veiðarfærum fyrir ákveðna hópa. Þetta gæti gerst taki ESB upp þá stefnu að ákveðið hlutfall kvóta fari til þeirra sem stunda veiðar með áreiðanlegu eftirliti og skráningu.

„Það ætti að vera ávinningur af því að stunda ábyrgar veiðar áður en innleitt er lögboðið eftirlitskerfi.“

Fullkominn floti

Danski uppsjávarflotinn veiðir árlega um 400.000 tonn í troll og nót og flotinn samanstendur af nokkrum af stærstu og nútímalegustu uppsjávarskipunum í flota Evrópusambandsins.

Á síðasta ári kynnti norska fiskistofan nýja FangstID forritið sem verður í notkun næstu fimm árin. Með því ætla stjórnvöld að leggja sitt af mörkum til að nýta nýjar tæknilausnir um borð í fiskiskipum til að tryggja rétta skráningu á því sem er tekið úr auðlindinni. Fyrsta árið fer þó aðallega í að undirbúa verkefnið og með vorinu verða halda útboð til að þróa tæknilausnirnar, að sögn Thord  Monsen, yfirmanns eftirlitsdeildar norsku fiskistofunnar.