Línu- og krókaframleiðandinn Mustad í Noregi, sem er Íslendingum að góðu kunnur, er nú í söluferli vegna taprekstrar undangenginna ára. Fyrirtækið velti jafnvirði um 20 milljarða íslenskra króna á síðustu sjö árum en tapið á þessu tímabili fyrir skatt nam rösklega þremur milljörðum ISK.

Mustad er 180 ára gamalt fjölskyldufyrirtæki. Aðaleigandi þess segir í samtali við Fiskeribladet/Fiskaren að orsök taprekstrarins sé aukin verðsamkeppni á markaðnum, einkum frá Asíu. Þótt framleiðsluvörur Mustad séu að hluta til framleiddar í Kína er verulegur hluti starfseminnar ennþá í Noregi.

Fjárfestingarfyrirtækið Börre Nordheim-Larsen og NLI Utvikling eru að kanna kaup á fyrirtækinu og er málið komið það langt að Samkeppniseftirlitið fengið tilkynningu um það.

Mustad er í fararbroddi í heiminum í framleiðslu fiskikróka og selur framleiðslu sína til 160 landa.