Móttaka fiskimjölsverksmiðja á Íslandi dróst saman um 44% á síðasta ári. Munar þar mestu um minnkandi loðnuafla, að því er fram kemur í úttekt í nýjustu Fiskifréttum.

Á árinu 2016 tóku fiskimjölsverksmiðjur á Íslandi á móti um 436 þúsund tonnum af hráefni til bræðslu. Inni í þessum tölum er bæði móttaka á hráefni frá íslenskum skipum og erlendum skipum. Á árinu 2015 var tekið á móti 781 þúsund tonni. Samdráttur milli áranna 2015 og 2016 er því 44,2%. Þess má geta að árið 2014 tóku fiskmjölsverksmiður við 430 þúsund tonnum til vinnslu sem er svipað magn og á síðasta ári. Samdrátturinn árið 2016 skýrist fyrst og fremst af minni loðnuveiði.

Fram til ársins 2006 var loðna aðalhráefni fiskimjölsverksmiðja en þá tók kolmunninn sæti hennar í nokkur ár. Á árunum 2009 og 2010 var mest brætt af norsk-íslensku síldinni en loðnan endurheimti sinn fyrri sess á árunum 2011 til 2013. Á árinu 2014 varð kolmunninn mikilvægasta hráefnið á ný þar sem lítið var veitt af loðnu. Á árinu 2015 var svo aftur mest brætt af loðnu, eða 395 þúsund tonn og rúm 50% af heildinni. Nú hefur þetta snúist við og kolmunninn er aftur kominn í fyrsta sæti með um 51% af heild á síðasta ári. Á árinu 2016 var brætt 81 þúsund tonn af loðnu sem er tæp 17% af öllu hráefni verksmiðjanna.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.