Formannaráðstefna Farmanna- og fiskimannasambands Íslands sem haldin var í lok síðustu viku ályktar að kröfur LÍÚ (SFS) um kjaraskerðingu á hendur sjómönnum  séu óverjandi og í algjörri mótsögn við einstaklega góða rekstrarafkomu sjávarútvegsfyrirtækja. Ráðstefnan mótmælir margra ára gamalli kröfugerð sem sé ekki neinu samræmi við afkomu greinarinnar og ennfremur því að opinber álagningarstefna stjórnvalda á atvinnugreinina eigi að hafa neikvæð áhrif á kjör sjómanna.

Af öðrum ályktunum má nefna áskorun um að sjávarafli verði verðlagður í gegnum uppboðsmarkaði eða afurðaverðstengdur. Þá er því beint til Samkeppnisstofnunar að hún skoði hvort verðlagning á fiski í beinum viðskiptum milli skyldra aðila standist samkeppnislög.

Þá er skorað á stjórnvöld að tryggja Landhelgisgæslunni nægilegt fjármagn til reksturs skipa stofnunarinnar. Sama gildir um fjármagn til reksturs rannsóknaskipa Hafrannsóknastofnunar.

Loks er þess krafist að stjórnvöld skili sjómönnum til baka sjómannaafslættinum sem þeir hafi notið í meira en 50 ár.