Sveitarfélögin Vest­ur­byggð og Tálkna­fjarð­ar­hreppur hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu vegna aftur­köllunar leyfa til laxeldis í Patreks­firði og Tálkna­firði.

Í yfirlýsingunni segir að sveitarfélögin krefjast þess að gripið verði til tafarlausra aðgerða, eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi rekstrarleyfi sem Matvælastofnun veitti Fjarðarlaxi [Arnarlaxi] og Artic Sea í Patreksfirði og Tálknafirði.

„Áhrif úrskurðarins eru gríðarleg á atvinnulíf og samfélög á sunnanverðum Vestfjörðum og verulegir hagsmunir í húfi. Frá upphafi hafa sveitarfélögin gert þá skýlausu kröfu að faglega sé staðið að veitingu leyfa ásamt því að rannsóknum og virku eftirliti sé sinnt. Lögð hefur verið áhersla á að byggja upp ábyrga atvinnugrein í sátt við menn og náttúru og eru það því mikil vonbrigði komin sé upp sú staða að líf fólks og framtíðaráform séu sett í uppnám. Ákall sveitarfélaganna er að þetta mál verði sett í algjöran forgang hjá ríkisstjórn og alþingi þannig að hægt verði að lágmarka þann skaða sem nú þegar er orðinn,“ segir í yfirlýsingunni.

Úrskurðir

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur í tveimur úrskurðum sem féllu þann 27. september 2018 fellt úr gildi ákvörðun Matvælastofnunar um veita Fjarðarlax ehf. [Arnarlax] og Arctic Sea Farm rekstrarleyfi fyrir 17.500 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði.

Frá þessu greindi Matvælastofnun í gær.

Niðurstaða nefndarinnar byggir á að umhverfismatsskýrsla fyrirtækjanna og álit Skipulagsstofnunar á skýrslunni geti ekki verið lögmætur grundvöllur fyrir ákvörðun um veitingu leyfa til framkvæmda. Taldi nefndin að Matvælastofnun hefði borið að tryggja að málið væri nægilega upplýst, m.a. með því að gæta að því að lögbundið álit Skipulagsstofnunar hafi verið nægilega traustur grundvöllur fyrir leyfisveitingu.

Í frétt Matvælastofnunar segir jafnframt eftirfarandi:

„Nefndin taldi að svo hafi ekki verið þar sem tefla hefði þurft fram fleiri en einum valkosti við mat á umhverfisáhrifum, enda sé nauðsynlegt að fá fram samanburð umhverfisáhrifa fleiri kosta sem lögbundin krafa er gerð um, allt í þeim tilgangi að leyfisveitandi geti tekið upplýsta afstöðu að rannsökuðu máli til þess að meta hvort eða með hvaða hætti hægt sé að leyfa framkvæmd þannig að skilyrði laga séu uppfyllt. Þar sem ekki hafi verið sýnt fram á í mati á umhverfisáhrifum að enginn annar mögulegur framkvæmdakostur hafi getað komið til greina verði að telja það verulegan ágalla á matinu að engum öðrum kosti hafi verið lýst, að öðru leyti en því að vísað væri til þess að núllkostur hefði engin áhrif í för með sér. Matvælastofnun mun í framhaldinu fara yfir forsendur úrskurðarins og hvernig bregðist beri við þessari niðurstöðu.“

Úrskurður Arctic Sea Farm

Úrskurður Fjarðalax [Arnarlax]

Uppfært 15:30

Yfirlýsing frá stjórn Vestfjarðastofu, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppi, Ísafjarðarbæ, Bolungarvíkurkaupstað, Súðavíkurhreppi og Strandabyggð:

Stjórn Vestfjarðastofu og ofangreind sveitarfélög  harma niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem felldi í gær úr gildi tvö rekstrarleyfi sem Matvælastofnun veitti Fjarðarlaxi og Arctic Sea Farm til eldis á 17.500 tonnum af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði. Ljóst er að úrskurðurinn mun hafa gríðarleg áhrif á atvinnulíf á Vestfjörðum sem og á landið í heild en gera má ráð fyrir miklu tapi á útflutningstekjum vegna úrskurðarins. Stjórnin krefst þess að stjórnvöld grípi til aðgerða til að tryggja áframhaldandi atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

Úrskurður umhverfis- og auðlindamála er áfellisdómur yfir Alþingi, ríkisstjórn og eftirlitsstofnunum og ljóst er að með skorti á stefnu, aðgerðarleysi og mistökum hafa yfirvöld haft grafalvarleg áhrif á atvinnuuppbyggingu og starfsöryggi fjölda manns.  Um er að ræða skýrt dæmi um sálarlausa stjórnsýslu þar sem framtíð fjölda fólks og margra byggðarlaga er sett í uppnám með einu pennastriki. Umhugsunarvert er hvernig stjórnsýslan hefur þróað með sér kerfi þar sem ákvarðanir eru teknar án þess að minnst sé á fólk, fjölskyldur eða samfélagslegar afleiðingar.

Vestfirðingar hafa gegnum aldirnar byggt afkomu sína á sjávarútvegi og er eini landshlutinn á Íslandi þar sem öll sveitarfélögin hafa umhverfisvottun Earth Check. Fiskeldi er umhverfisvæn atvinnugrein sem skapað getur umtalsverð útflutningsverðmæti fyrir land og þjóð og haft í för með sér jákvæða íbúaþróun.  Þá eru Vestfirðir stóriðjulausir og fjórðungurinn verður það áfram um ókomna tíð. Í ljósi þessa eru Vestfirðir í fararbroddi þegar kemur að umhverfismálum landsins.

Úrskurðurinn vekur jafnframt upp spurningar um stöðu annarra atvinnugreina og nýtingu náttúrunnar, hvort sem er til fiskeldis, ferðaþjónustu eða landbúnaðar, gagnvart jafn fordæmalausri og ósvífinni hagsmunabaráttu fámennra hópa auðmanna.  Það getur ekki verið vilji samfélagsins að stöðva allar framkvæmdir, hvort sem um er að ræða atvinnuuppbyggingu, úrbætur í vegamálum eða orkuflutningu og framleiðslu, með flókum kerfum sem ekki tala saman.

Vestfirðingar eru forviða yfir þessum úrskurði og beina þeim tilmælum til stjórnvalda að horfa til heildarhagsmuna þjóðarinnar í málefnum fiskeldis, sem er atvinnugrein í örum vexti á heimsvísu, enda ein umhverfisvænasta framleiðsluaðferð á matvælum sem mannkynið býr yfir. Mikilvægt er að fiskeldisuppbygging endi ekki í þeim sorglega farvegi að velkjast um í kerfinu í áratugi með óbætanlegu tjóni fyrir fyrirtækin, samfélögin sem um ræðir og þjóðarbúið.