,,Það er mjög góð loðnuveiði og mikið að sjá. Skipin taka mikinn afla á stuttum tíma í trollin. Þetta getur ekki verið öllu betra,” sagði Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki NK í samtali við Fiskifréttir eftir hádegi í dag.
Börkur landaði 1.400 tonnum í Neskaupstað í morgun og fékkst aflinn í þremur togum. Skipið staldraði aðeins við í 16 klukkustundir á miðunum. Um það bil tugur íslenskra skipa er byrjaður loðnuveiðar og eru þau nú á svæði austur úr Digranesflaki, um 110 sjómílur frá Neskaupstað. Algengur afli er 300-500 tonn eftir tveggja til fjögurra tíma tog. Íslensku skipin veiða loðnuna öll í troll núna.
Norsk loðnuskip eru komin á Íslandsmið og eru að veiðum um 60 mílum sunnan þau íslensku. Norsku skipin mega bara veiða í nót og hafa veiðar þeirra gengið vel síðustu tvo sólarhringana enda veður skaplegra þar en á veiðisvæði Íslendinganna.