Allir fjórir línubátar útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins Stakkavíkur í Grindavík, Katrín GK, Óli á Stað GK, Guðbjörg GK og Andey GK, eru við veiðar á hávertíð og landa ýmist í Sandgerði eða Grindavík eftir veðri og aðstæðum. Nýlega kom Katrín GK úr vel heppnuðum róðri með samtals um tólf tonn í einni lögn og var landað í Grindavík. Ólafur Daði Hermannsson, framleiðslustjóri Stakkavíkur, segir hörkuveiði þessa dagana eftir brösuga byrjun í upphafi árs þegar nánast stanslausar brælur voru.

En það er eitt að veiða fiskinn og annað að selja hann. Á sama tíma og veiðarnar ganga eins og í sögu eru markaðir, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum fyrir ferskan fisk, með daufasta móti, að sögn Ólafs Daða. Það má ekki síst rekja til „skrei“ tímabilsins í Noregi þegar þarlendir moka upp hrygningarfiski sem hefur alist upp í Barentshafinu og trukka honum lítt eða óunnum inn á markaði í Evrópu. Norðmenn virðist líka geta boðið fiskinn á mun lægri verðum en aðrir á þessum árstíma. Einnig setja verkfall víða í Evrópu strik í reikninginn. Þá hefur verið meira framboð af fiski frá innlendum aðilum á þeim mörkuðum í Bandaríkjunum sem Stakkavík selur sínar afurðir inn á. Þetta hefur áhrif á verðið og það á versta tíma eins og jafnan, því nú er hávertíð sunnanlands og auðvelt að ná í fiskinn en erfiðara að ná góðum verði fyrir hann á erlendum mörkuðum. Af þessum ástæðum hafi aðeins verið dregið úr sókninni upp á síðkastið.

Ólafur Daði segir þetta blóðugt en svona hafi þetta verið síðan elstu menn muna. Stakkavík var áður líka í saltfiskverkun en einbeitir sér nú eingöngu að ferskfiskvinnslu, brakandi nýjum línufisk. Lausfrystar afurðir og saltfiskafurðir eru að skila háum verðum um þessar mundir, enda páskar og tilheyrandi saltfiskveislur fram undan í mannmörgum Suður-Evrópulöndum. Ætla mætti að hagfelldara væri að hafa færri egg í sömu körfunni en Stakkavík, hefur eins og mörg önnur útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki, fært sig alfarið yfir í ferskfiskvinnslu og það reyndar með góðum árangri.