Línuskipin mokveiða nú á Flæmingjagrunni enn eitt árið, að því er fram kemur í frétt á vef færeyska sjónvarpsins.
Sem dæmi veiddi Váðsteinur 42 tonn fyrsta daginn og annan daginn var gert ráð fyrir að aflinn yrði 30 tonn. Aflinn er því 72 tonn á tveim dögum. „Tað er rættiliga góður fiskiskapur,“ eins og Færeyingarnir orða það. Þá fékk Klakkur 60 tonn á tveim dögum.
Sex færeysk línuskip eru þarna að veiðum. Það eru Kambur, Stapin, Ågot og Eivind fyrir utan þau tvö sem nefnd hafa verið. Öll skipin frysta aflann um borð fyrir utan Váðsteinur sem veiðir í ís.
Kvóti færeyskra skipa á Flæmingjagrunni í ár er 3.114 tonn af þorski. Hér er um heildarkvóta að ræða sem skiptist ekki á skip þannig að veiðarnar eru olympískar.