Nokkrir bátar hafa verið á grálúðuveiðum fyrir norðan land og hafa aflabrögð verið í góðu lagi. Pétur Karlsson, skipstjóri á Kristrúnu RE, talar jafnvel um mokfiskirí en hann hefur um langt árabil stundað grálúðuveiðar.

[email protected]

Kristrún RE hefur verið á þessum veiðum síðan í byrjun janúar. Áður fyrr, eða árin 2008 og 2009, þegar Kristrún var nýlega komin í eigu Fiskkaupa hf. í Reykjavík, var hún allt árið á grálúðuveiðum.

„Veiðarnar hafa gengið mjög vel og má eiginlega segja að það hafi verið mokveiði alveg frá því í janúar. Við vorum 310 tonn í þar síðasta róðri og erum að landa núna 300 tonnum eftir mánaðarlangan túr,“ segir Pétur. Grálúðan er vel haldin og væn.

10-12 tonn fryst á sólarhring

Kristrún er með 8 trossur og 640 net. Miðin eru á stóru svæði austan frá Hala og allt suður í Seyðisfjarðardýpi. Allt er fryst um borð. Frystigetan hefur rétt náð að hafa undan því sem dregið hefur verið úr sjó en hún er á milli 10-12 tonn á sólarhring. Grálúðan er hausuð, sporðskorin og slógdregin.  Landað hefur verið jafnt á Akureyri og í Reykjavík. Afurðirnar eru fluttar út, aðallega á Asíumarkað.

16 eru í hverju sinni í áhöfn Kristrúnar sem frá og með febrúar hefur verið með skiptiáhöfn. Þess vegna hefur verið landað á Akureyri og með því vinnst að styttra er aftur á miðin. Þannig er róið í einn mánuð og einn mánuðir í landi. Pétur segir að líklega verði haldið áfram á grálúðu eitthvað fram á haust.