,,Þessi vertíð er algjörlega frábrugðin nokkrum síðustu vertíðum, að mínu mati. Það hefur þurft að hafa meira fyrir aflanum og makríllinn er smærri og blandaðri en áður,“ segir Guðlaugur Jónsson skipstjóri á Ingunni AK í samtali á vef HB Granda .
Ingunni AK kom til Vopnafjarðar fyrir helgina með um 550 tonna afla og var uppistaða hans að mestu leyti makríll. Ingunn hefur verið að veiðum fyrir sunnan og suðvestan Litla-Djúp og að sögn Guðlaugs hefur veiðin verið mjög gloppótt, góður afli einn daginn en tregara þess á milli. Veðráttan hefur sömuleiðis verið óhagsstæðari en þó ekki til mikilla vandræða enn sem komið er.
Að sögn Guðlaugs er togað í þetta þrjá til fimm tíma í senn. Makríllinn, sem veiddist í síðustu viku var frá um 360 grömmum og upp í ríflega 400 grömm. Uppsjávarveiðiskipin hafa haldið sig að veiðum úti fyrir SA-landi á meðan togararnir hafa verið að veiðum vestur af landinu. Ein þrjú skip reyndu fyrir sér úti við miðlínumörkin á milli Íslands og Grænlands og þar var ágæt veiði í eina tvo daga, að sögn Guðlaugs.