Brottkast þorsks og ýsu hefur minnkað samkvæmt mælingum á árinu 2009. Hér er um að ræða brottkast þegar tiltekinni lengd af fiski er hent kerfisbundið, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

Samkvæmt upplýsingum sem Fiskifréttir fengu hjá Ólafi Karvel Pálssyni fiskifræðingi nam brottkast þorsks um 829 tonnum árið 2009, eða 0,49% af lönduðum afla, og er það lægsta hlutfall frá upphafi mælinga árið 2001.

Brottkast ýsu var 553 tonn eða 0,69% af lönduðum afla og er það sömuleiðis lægsta brottkastshlutfall ýsu á árabilinu 2001-2009.

Brottkast þorsks hefur minnkað nokkuð undanfarin þrjú ár, bæði í þyngd og fjölda fiska, og var á árinu 2009 svipað og árin 2003 til 2004. Brottkast ýsu hefur minnkað mikið undanfarin fjögur ár. Brottkast þorsks og ýsu var í fyrsta skipti svipað að umfangi árið 2009 en áður var brottkast ýsu alltaf mun meira en brottkast þorsks.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.