Hafnarstjórn Faxaflóahafna samþykkti á síðasta fundi sínum að útilistaverkið Tíðir verði sett upp í Vesturbugt, austan Sjóminjasafnsins.
Tilefnið 100 ára afmælið
Hafnarstjóra er falið að vinna að undirbúningi verkefnisins og leggja fram áætlun um kostnað við verkefnið og heppilegan framkvæmdatíma meðal annars með hliðsjón af öðrum framkvæmdum á Mýrargötusvæðinu.
Þetta kemur fram í fundargerð en Faxaflóahafnir efndu til samkeppni um nýtt útilistaverk við Gömlu höfnina í Reykjavík fyrr á þessu ári. Tilefnið er 100 ára afmæli hafnarinnar, en þema samkeppninnar var hlutdeild kvenna í starfssemi og sögu hafnarinnar.
Tillagan sem varð hlutskörpust ber heitið Tíðir, en bak við hana standa Hulda Rós Guðnadóttir, myndlistarmaður, Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt, og Gísli Pálsson fornleifafræðingur. Alls gáfu 29 myndlistarmenn, einstaklingar og hópar, kost á sér í samkeppnina sem haldin var í samstarfi við Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM).
Villigarður
Í umsögn dómnefndar um vinningstillöguna segir meðal annars að „Tíðir er umhverfisverk, villigarður, þar sem tekist er á við frumkrafta náttúrunnar og unnið með villigróður í bland við manngert umhverfi borgarinnar. Í verkinu er vísað í störf kvenna á mótum lands og sjávar. Sjónum er ekki einungis beint að hefðbundnum störfum eins og að stakka fiski, beitningu og uppskipun, heldur einnig að því að hirða strandnytjar til að veita líkn gegn sulti og veikindum. Garðurinn myndar tákn fyrir konuna sem skapar umgjörð, hlúir að og veitir skjól.“
Verkið Tíðir er nýr viðkomustaður í borginni, þar sem vegfarendur geta dvalið og notið. Verkið er minnisvarði um framlag kvenna og um leið hið síbreytilega landslag sjávarsíðu Reykjavíkur,“ segir einnig í umsögn dómnefndar.