Nýlega var lokið við endurgerð á sögufrægum göngustíg á milli hafnarborgarinnar Buckie og bæjarins Keith í norðaustanverðu Skotlandi. Var hann opinberlega tekinn í notkun nú í vikunni með viðhöfn af Alex Salmond, forsætisráðherra Skota.
Göngustígurinn, sem er rúmlega 20 kílómetra langur, er merkilegur fyrir þær sakir að eiginkonur fiskimanna í Buckie gengu hann fyrr á árum til Keith með fulla körfu af fiski á bakinu sem vó allt að 20 kíló. Þær seldu fiskinn, keyptu mjólk í staðinn og héldu svo til baka samdægurs með mjólkurbrúsa. Gengu þær því um 40 kílómetra á sólarhring með byrðar sínar sem er með ólíkindum.
Stígurinn var notaður fram á miðjan sjötta áratug 20. aldar. Síðasta konan sem gekk hann með fisk á bakinu var 73 ára þegar hún fór í sína lokaferð.
Stígurinn er endurgerður til að heiðra minningu þessara kvenna sem gengu hann af ótrúlegu þreki og þrautseigju. Einnig er verið að votta þeim virðingu með því að minna á mikilvægi þeirra í atvinnulífi svæðisins á sínum tíma. Loks gera menn sér vonir um að göngustígurinn í sinni nýju mynd laði að sér ferðamenn sem leita að fögru umhverfi og vilja kynna sér forna atvinnuhætti.