Norsk uppsjávarfyrirtæki eru bjartsýn á makrílverð næstu vertíðar, telja það muni hækka enn frekar eftir að hafa verið í hæstu hæðum á síðustu vertíð.

Þetta segir fréttavefurinn Undercurrent News hafa komið greinilega fram á sjávarútvegsráðstefnunni North Atlantic Seafood Forum, sem haldin var í Bergen í Noregi í síðustu viku.

Hátt verð síðustu vertíðar þakka Norðmenn litlu framboði, og þar sem kvótar lækka aftur þetta árið megi búast við að verðið fari upp. Eftirspurnin sé það mikil.

Á hinn bóginn segir Undercurrent News litla bjartsýni ríkja varðandi síldarverðið, sem nú þegar er lægra en verið hefur í níu ár.

Aftur á móti megi búast við því að kolmunnaverð hækki, enda sé hörð samkeppni um hráefni meðal fiskimjölsframleiðenda.

„Það eru dökkar horfur með sandsílið, það eru engir loðnukvótar hvorki í Barentshafi né við Ísland,“ hefur Undercurrent eftir Paul Oma, framkvæmdastjóra norska Sildelaget, sem hélt erindi á ráðstefnunni um markaðsmál tengd uppsjávarveiðum.

Alls hefur uppsjávarkvóti Norðmanna dregist saman um 25 prósent á þessu ári, og munar mjög um loðnubrestinn bæði í Barentshafi og við Ísland auk þess sem kolmunnakvótinn hefur minnkað um 18 prósent.

Makrílkvóti Norðmanna var kominn niður í 200 þúsund tonn á síðasta ári og fer niður í rétt rúmlega 150 þúsund tonn á þessu ári.

[email protected]