„Það er miklu meira af loðnu á ferðinni nú en í fyrra og raunar eru áratugir síðan sést hefur jafnmikið af loðnu,“ sagði Guðjón Jóhannsson skipstjóri á Hákoni EA í samtali við Fiskifréttir sem komu út í dag. Að sögn Guðjóns er ekki bara meira af loðnunni en í fyrra heldur er hún einnig miklu vænni. Nú væru 30-40 fiskar í hverju kílói en algengt var fyrir fáum árum að 50-60 fiskar væru í kílóinu.
Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar segir í Fiskifréttum að höfuðáhersla verði lögð á frystingu á loðnu og loðnuhrognum en þó sé ljóst að vinnsla til manneldis geti ekki tekið á móti allri þeirri loðnu sem berist á land. Hann áætlar að til þess að kvóti íslenskra skipa náist þurfi að bræða um 160.000 tonn á vertíðinni. Megnið af því verði hrat frá hrognavinnslunni en líklega verði um 50.000 tonnum landað til bræðslu.
Sjá nánar umfjöllun í nýjustu Fiskifréttum.
.