Lax sem fluttur er út heill endar í mjög mörgum tilfellum sem flakaður fiskur á borðum neytenda utan Íslands en aukaafurðirnar, allt að 40 til 45% af fiskinum enda á haugunum í okkar nágrannalöndum. Þetta meðal annars kemur fram í aðsendri grein Þórs Sigfússonar, framkvæmdastjóra Íslenska sjávarklasans, sem birtist í Fiskifréttum síðastliðinn fimmtudag. Hér á eftir fer grein Þórs um mikilvægi fullvinnslu í sjávarútveg.

Íslendingar hafa náð frábærum árangri í fullnýtingu sjávarafurða. Á meðan margar þjóðir í kringum okkur sóa miklum verðmætum með slæmri nýtingu aukaafurða og búa um leið til stærra kolefnisfótspor, þá hafa íslensk fyrirtæki náð að nýta afurðir mun betur og draga þannig úr sóun.

Spörum 1,5 milljón tonna af kolefni …

Með einföldum reikningi má ætla að fyrir hver eitt þúsund tonn af aukaafurðum sem fari til spillis verði til um 20 þúsund tonn af CO2. Í þessum reikningi er miðað við að prótein og önnur næringarefni úr aukaafurðunum nýtist í stað annarra matvælapróteina, sem í flestum tilfellum hafa mun stærra kolefnisfótspor en sjávarafurðir. Auk þess má taka með í reikninginn þá mengun sem hlýst af því að urða fiskafganga. Ef miðað er við um 250 þúsund tonna veiðar hérlendis á hvítfiski og að Íslendingar nýti allt að 30% meira af fiskinum en gerist og gengur í nágrannalöndum okkur, þýðir þetta að sjávarútvegurinn er að draga úr kolefnisfótsporum sem nemur allt að 1,5 milljón tonna af kolefni á hverju ári

…en getum gert enn betur

Þetta er ekki einungis sagt til að fagna einstökum árangri heldur til þess að minna á að við eigum enn verk að vinna á þessu sviði. Við erum ennþá að senda úr landi óunnar aukaafurðir sem nema allt að 30 til 40 þúsund tonnum á ári. Sóunin hér er auðvitað fyrst og frest sú að við erum að flytja þessa afurð út sem er að stórum hluta vatn. Því hefur þessi flutningur í för með sér umtalsverða sóun. Það er líka ill skiljanlegt að þetta skuli enn vera jafn viðamikil starfsemi þegar svo margháttuð áframvinnsla er í boði hérlendis. Hér er gott tækifæri fyrir sjávarútveginn og alla stoðstarfsemi hans að gera betur.

Annað mikilvægt verkefni framundan er að draga úr útflutningi á heilum fiski. Það er áhyggjuefni að stór hluti af eldislaxi, sem framleiddur er hérlendis, sé að fara úr landi óunninn en um leið er einnig töluverður útflutningur á heilum hvítfiski. Í þessum efnum erum við Íslendingar ekki að sjá stórt kolefnisfótspor í bókhaldi um kolefnisfótsporið hér innanlands þar sem við flytjum aukaafurðirnar úr landi og þær lenda í kolefnisbókhaldi annarra þjóða. En við eigum að gera betur í þessum efnum. Lax sem fluttur er út heill endar í mjög mörgum tilfellum sem flakaður fiskur á borðum neytenda utan Íslands en aukaafurðirnar, allt að 40 til 45% af fiskinum enda á haugunum í okkar nágrannalöndum. Frændur okkar Norðmenn eru stærstu eigendur laxeldisfyrirtækja okkar og hafi um árabil stundað stórfelldan útflutning á heilum og óunnum laxi og hvítfiski. Við eigum að taka af skarið í þessum efnum og minna eigendur eldisfyrirtækjanna á að þekking og tækni, hér innanlands í fullvinnslu hvítfisks, á að geta nýst við að vinna mun betur úr laxinum en gert er í dag. Stofnendur landeldisfyrirtækja hérlendis hafa sýnt mikinn áhuga á fullvinnslu afurðanna og sett fram heildstæða stefnu um hvernig þau hyggjast nýta laxinn að fullu leyti til framleiðslu ýmissa bæti- og heilsuefna.

Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans.
Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans.
© BIG (VB MYND/BIG)

Við flytjum enn út vandann

Það þarf ekki að taka fram hér að þótt hvert land hugi að sínu spori þá er vandamálið við kolefnisfótsporið ekki bundið við lönd og sóun í öðrum löndum eykur vanda okkar. Ef við miðum við að hér sé um að ræða 60 þúsund tonn af heilum fiski, sem sendur er úr landi, og að 30% hans endi sem landfylling, má gera ráð fyrir að við séum að stuðla að því að tugþúsundir tonna af kolefni á ári verði til utan Íslands. Þess má geta að Íslenski sjávarklasinn og Matís vinna náið með vinnsluaðilum í Bretlandi að því að skoða hvernig megi betur nýta aukaafurðir af þeim heila hvítfiski sem berst þangað frá Íslandi.

Fleiri í lifur og roði en um borð í togurum!

Þótt hér sé fyrst og fremst talað um kolefnisfótsporið þá má ekki gleyma því að í fullvinnslu hvers konar felast tækifæri til að skapa verðmæti og áhugaverð störf. Miðað við þá þróun sem hefur átt sér stað hérlendis í áframvinnslu aukaafurða og tækni má fullyrða að á næstu árum verði hægt að segja að fleiri vinni við sjávarútveg en verið hefur í marga áratugi. Ef einungis er horft til starfsmanna fyrirtækja, sem vinna úr roði og lifur eða selja þessar afurðir á heimsmarkaði, þá er ugglaust ekki langt í að þessi hópur starfsmanna og sérfræðinga verði jafn fjölmennur og áhafnir allra togara á landinu.

Á meðan aðrar þjóðir reyna að setja lög og setja aðrar kvaðir á sjávarútveg um fullvinnslu afurða hefur okkur tekist að ná árangri án þess að skipun hafi komið að ofan. Sjávarútvegurinn hefur séð þessi tækifæri og nýtir þau. Sama á að vera uppi á teningnum með það sem eftir er af óunnum hvítfiski og eldi. Við þurfum að efla samstarf frumkvöðla á þessu sviði, tæknifyrirtækjanna, sjávarútvegs og eldis. Við eigum langa og merka sögu um fullnýtingu á fiski hérlendis og eigum að vera stolt af því að geta sagt að við séum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar í þessum efnum á heimsvísu. Það getum við bæði gert með því að draga úr útflutningi á heilum fiski, ekki síst laxi og fullvinna sjálf þær aukaafurðir sem verða til hérlendis í sjávarútvegi og hafa verið fluttar úr óunnar.