Fjallað er um loðnuleit og loðnuveiðar og mikilvægi þeirra fyrir fyrirtækin og samfélagið allt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
„Nú stendur yfir loðnuleit og menn munu bíða spenntir eftir niðurstöðu hennar. Loðnan skiptir þjóðarbúið allt miklu máli en mestu máli skiptir hún fyrir fyrirtækin sem annast veiðar og vinnslu á þessum litla en mikilvæga fiski. Hjá þessum fyrirtækjum skiptist árið upp í nokkur tímabil sem kennd eru við þá fisktegund sem unnin er hverju sinni og af þessum tímabilum er loðnutímabilið hvað mikilvægast. Ef loðnan skilar sér ekki þá verða fyrirtækin fyrir alvarlegu höggi og það sama á við um starfsfólk þeirra, þau sveitarfélög sem þau starfa í og ríkissjóð. Loðnuleysi er þannig högg fyrir allt samfélagið.
Kemur seinna en áður
Loðnan, rétt eins og blessuð síldin, virðist vera óútreiknanleg. Á undanförnum árum hefur hún komið seinna en áður upp að landinu og sum árin hefur takmarkað fundist af henni. Árið 2009 var einungis gefinn út 15.000 tonna rannsóknarkvóti og eins og menn muna voru árin 2019 og 2020 alger loðnuleysisár. Loðnuveiðum hefur verið stýrt frá 1978 – 1979 og síðan þá hefur þess verið gætt að ákveðið magn af loðnunni hrygni við landið. Hafa ber einnig í huga að loðnan er mikilvæg fæða fyrir þorsk og aðra nytjastofna auk þess sem hvalir sækja mikið í loðnuna og þeim hefur fjölgað ár frá ári um langt skeið.
Staðreyndin er sú að því fer fjarri að loðnan sé nægilega rannsökuð. Nauðsynlegt er að afla ítarlegra og reglubundinna upplýsinga um loðnuna og til dæmis fá mynd af því hvort og þá hvaða áhrif umhverfisbreytingar hafa á stofninn.
Japanskir kaupendur fylgjast grannt með
Það eru ekki einungis Íslendingar sem bíða spenntir eftir niðurstöðu yfirstandandi loðnuleitar. Hinir erlendu kaupendur loðnuafurða fylgjast einnig með og þá ekki síst japanskir. Japanskir neytendur þekkja íslensku loðnuna sem gæðavöru og í Japan fer hún öll til manneldis. Að auki eru Japanir helstu kaupendur loðnuhrogna. Í Japan er loðnan þurrkuð, steikt og unnin með ýmsum öðrum hætti. Að sögn japanskra kaupenda er ávallt hætta á því að japanskir neytendur beini sjónum sínum að annarri vöru ef íslenska loðnan er ekki á boðstólum og því geta áhrif eins loðnuleysisárs orðið býsna alvarleg og jafnvel langvarandi. Síðan er það spurningin hvort loðna sem veidd er annars staðar geti glatt bragðlauka japanskra neytenda ef hún sýnir sig ekki hér við land."
Fjallað er um loðnuleit og loðnuveiðar og mikilvægi þeirra fyrir fyrirtækin og samfélagið allt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
„Nú stendur yfir loðnuleit og menn munu bíða spenntir eftir niðurstöðu hennar. Loðnan skiptir þjóðarbúið allt miklu máli en mestu máli skiptir hún fyrir fyrirtækin sem annast veiðar og vinnslu á þessum litla en mikilvæga fiski. Hjá þessum fyrirtækjum skiptist árið upp í nokkur tímabil sem kennd eru við þá fisktegund sem unnin er hverju sinni og af þessum tímabilum er loðnutímabilið hvað mikilvægast. Ef loðnan skilar sér ekki þá verða fyrirtækin fyrir alvarlegu höggi og það sama á við um starfsfólk þeirra, þau sveitarfélög sem þau starfa í og ríkissjóð. Loðnuleysi er þannig högg fyrir allt samfélagið.
Kemur seinna en áður
Loðnan, rétt eins og blessuð síldin, virðist vera óútreiknanleg. Á undanförnum árum hefur hún komið seinna en áður upp að landinu og sum árin hefur takmarkað fundist af henni. Árið 2009 var einungis gefinn út 15.000 tonna rannsóknarkvóti og eins og menn muna voru árin 2019 og 2020 alger loðnuleysisár. Loðnuveiðum hefur verið stýrt frá 1978 – 1979 og síðan þá hefur þess verið gætt að ákveðið magn af loðnunni hrygni við landið. Hafa ber einnig í huga að loðnan er mikilvæg fæða fyrir þorsk og aðra nytjastofna auk þess sem hvalir sækja mikið í loðnuna og þeim hefur fjölgað ár frá ári um langt skeið.
Staðreyndin er sú að því fer fjarri að loðnan sé nægilega rannsökuð. Nauðsynlegt er að afla ítarlegra og reglubundinna upplýsinga um loðnuna og til dæmis fá mynd af því hvort og þá hvaða áhrif umhverfisbreytingar hafa á stofninn.
Japanskir kaupendur fylgjast grannt með
Það eru ekki einungis Íslendingar sem bíða spenntir eftir niðurstöðu yfirstandandi loðnuleitar. Hinir erlendu kaupendur loðnuafurða fylgjast einnig með og þá ekki síst japanskir. Japanskir neytendur þekkja íslensku loðnuna sem gæðavöru og í Japan fer hún öll til manneldis. Að auki eru Japanir helstu kaupendur loðnuhrogna. Í Japan er loðnan þurrkuð, steikt og unnin með ýmsum öðrum hætti. Að sögn japanskra kaupenda er ávallt hætta á því að japanskir neytendur beini sjónum sínum að annarri vöru ef íslenska loðnan er ekki á boðstólum og því geta áhrif eins loðnuleysisárs orðið býsna alvarleg og jafnvel langvarandi. Síðan er það spurningin hvort loðna sem veidd er annars staðar geti glatt bragðlauka japanskra neytenda ef hún sýnir sig ekki hér við land."