Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur lagt til að loðnukvótinn í Bartentshafi á næsta ári verði 200 þúsund tonn en kvótinn var 320 þúsund tonn í ár, að því er fram kemur á vef samtaka norskra útvegsmanna.

ICES segir að ráðgjöfin taki meðal annars mið af þeirri nýtingarstefnu á loðnu sem norsk-rússneska fiskveiðinefndin hefur samþykkt.

Loðnukvótinn í Barentshafi árið 2011 var 380 þúsund tonn. Samdrátturinn á tveimur árum er því verulegur.

Á vef ICES kemur fram að um 2 milljónir tonna hafi mælst af fullorðinni loðnu en hrygningarloðna á árinu 2013 samanstendur af loðnu úr 2009 og 2010 árgöngunum. Þar segir einnig að talið sé að 2011 árgangurinn sé aðeins undir langtímameðaltali en vísbendingar segi til um að 2012 árgangurinn sé yfir langtímameðaltali.