Mikill áhugi er hjá skipum og bátum að hefja veiðar á makríl í net. Um tugur báta að minnsta kosti hefur hug á þessum veiðum, að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.
Í reglugerð um makrílveiðar, sem sjávarútvegsráðherra gaf út í lok mars, segir að 3 þúsund tonnum af makríl, af um 130 þúsund tonna heildarkvóta, skuli ráðstafað til skipa sem fyrirhuga veiðar á línu eða handfæri, í net eða gildrur samkvæmt leyfi frá Fiskistofu.
Krókabátar munu væntanlega aðeins veiða lítið magn úr þessum 3 þúsund tonna potti. Ef að líkum lætur verður mest veitt í net. Nokkrir netabátar undirbúa makrílveiðar í sumar í sérútbúin makrílnet. Einnig má nota netin sem reknet ef verkast vill.
Ísfell ehf. hefur búið sig undir þennan áhuga netabáta og eru 800 makrílnet væntanleg til landsins um mánaðamótin maí/júní og megnið af þeim er selt að sögn Daníels Þórarinssonar, deildarstjóra línu- og netadeildar Ísfells. Stærri bátar nota væntanlega 80-100 net hver. ,,Við höfum fengið staðfestar pantanir frá sjö bátum, bæði stórum og smáum, og útgerðir þriggja báta að minnsta kosti eru að velta þessum möguleika fyrir sér,“ segir Daníel.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.