Íslenskir fiskframleiðendur hafa miklar áhyggjur af mögulegu banni Rússa við innflutningi íslenskra afurða. Rússar bönnuðu fyrr í dag innflutning matvæla frá ríkjum Evrópusambandsins, Bandaríkjum og fleiri löndum. Ísland er, enn sem komið er, ekki á þessum lista, að því er fram kemur í fréttum RÚV.
Bann Rússa við innflutningi matvæla frá ríkjum á borð við Noreg gæti falið í sér mikil tækifæri fyrir íslenskar afurðir, segir Friðleifur Friðleifsson, sölustjóri Iceland Seafood í samtali við RÚV. Verði innflutningur frá Íslandi bannaður hefði það hins vegar gífurlegar afleiðingar.
„Enn sem komið er eru leyfi fyrir íslenskar afurður inn á rússneska markaðinn,“ segir Friðleifur. „Þannig að staðan er svo sem óbreytt. En ef það færi svo að vörur frá Íslandi yrðu bannaðar inn á rússneska markaðinn hefði það náttúrulega gífurlegar afleiðingar fyrir íslenska framleiðendur. Ísland er afskaplega mikilvægur markaður fyrir íslenska framleiðendur. Við erum að selja inn á Rússland afurðir fyrir 18,5 milljarða árið 2013. Þar af er makríll helmingurinn af þeirri upphæð eða níu milljarðar íslenskra króna. Þannig að það sjá allir að þetta eru gífurlegir hagsmunir.“
Sjá nánar á vef RÚV .