Dræmlega gengur á línuveiðum fyrir austan þótt nóg virðist vera þar af fiski. Haraldur Einarsson, skipstjóri á Jóhönnu Gísladóttur GK, segir mikið æti í sjónum og fiskurinn ekki gráðugur í krókana. Undanfarin þrjú ár hefur Jóhanna Gísladóttir verið við túnfiskveiðar um þetta leyti árs en ólíklegt er að farið verði í þær að þessu sinni.
„Við erum hérna í Vopnafjarðargrunninu fyrir utan lokaða hólfið. Ég reikna með að við löndum á Djúpavogi og það er þá í fjórða sinn sem við löndum þar. Það hefur ekki verið neinn kraftur í veiðunum enn sem komið er. Það hafa komið dagar þar sem þetta er í lagi en dettur svo niður þess á milli. Aðstæður til línuveiða hafa svo sem ekki verið upp á það besta upp á síðkastið. Það er mikið æti í sjónum og fiskurinn er ekki svangur,“ segir Haraldur.
Aflinn er síðan fluttur landleiðina til vinnslu hjá Vísi í Grindavík en hagkvæmara er að halda skipinu að veiðum fyrir austan en að láta það sigla með aflann suður. Það er því bara landað og haldið á veiðar á ný. Í áhöfn er um 20 manns og fjórtán um borð hverju sinni.
Í fyrri löndum á Djúpavogi var landað um 80 tonnum og uppistaðan þorskur, eða um 80%. Haraldur var á þriðju lögn þegar rætt var við hann og var frekar rólegt.
Fer rólega af stað
„Þetta er ekki eins og oft áður og fer frekar hægt í gang. Sérstaklega finnst mér lélegar fréttir vestan til á Norðurlandinu, á Strandagrunni og þar í kring. Veiðarnar virðast ekkert ætla að ná sér á strik. Fiskurinn virðist hafa nóg að éta víðast hvar af loðnu og öðru. Strax í vor var orðið erfitt að eiga við línu. Við sáum mikið af fiski en hann tók ekki.“
Hann segir að það hafi verið fínasta tíð og ekkert yfir veðrinu að kvarta. Fiskurinn hafi verið fullmikið blandaður og vantað meira af stórum millifiski sem menn eru vanir að fá á þessum tíma. Hann hafi verið annað hvort stór eða smár en lítið þar á milli.
Keppt við ætið
„Það eru alls staðar lóðningar og mikið af æti. Hérna eru menn líka að veiða makríl út um allt og líka síld. Makríllinn mætti fara að hopa af miðunum okkar vegna en auðvitað er þetta gott fyrir lífríkið en ekki jafn gott fyrir línuveiðarnar. Við erum að keppa við þessar tegundir um fæðuframboðið fyrir þorskinn.“
Verð með lægsta móti
Haraldur segir verð ennþá með lægsta móti. Gengið sé að fara illa með útgerð og sjómenn og afkoma þeirra hafi hríðversnað. „Það finnst strax fyrir því. Það þarf orðið að hafa virkilega fyrir því að manna flotann. Það hefur alltaf verið þannig til sjós að lækki tekjurnar fara menn að gera eitthvað annað. Það er ekki langt síðan þetta breyttist svona mikið. Fyrir stuttu síðan gat maður valið úr mannskap en þetta fylgist algjörlega að, fiskverð og framboð á mannskap. Maður hefur áhyggjur af þessum lágu verði og vonar bara að flotinn lendi í vandræðum með mönnun,“ segir Haraldur.
Ekki mikil afkoma af túnfiski í fyrra
„Eins og er reiknum við ekki með að fara á túnfiskveiðar. Við höfum farið þrjú ár í röð en það var lítið um túnfisk í fyrra. Hann var bara ekki á svæðinu. Mér skilst að verðin séu líka lág og svo kostar svona útgerð sitt. Ég reikna með að það sé ekki mikil afkoma af þessu því það er dýrt að sækja túnfiskinn og koma honum frá sér. Mér fannst alls ekki leiðinlegt að vera við túnfiskveiðar en maður tekur bara því sem höndum ber,“ segir Haraldur.