Meirihluti heimastjórnar Seyðisfjarðar felldi í gær tillögu eins fulltrúans um að biðja sveitarstjórnina að vekja athygli Kaldvíkur á því mati Veðurstofunnar að fyrirhugaðar laxeldiskvíar í Seyðisfirði fyrirtækisins séu á ofanflóðahættusvæði og að gera þurfi frekara hættumat.
Í tillögu Jóns Halldórs Guðmundssonar kemur fram að í umsögn Veðurstofu Íslands frá því janúar 2024 um tillögu MAST að rekstrarleyfi fyrir laxeldið í Seyðisfirði komi fram það mat Veðurstofunnar, að laxeldiskvíar í Seyðisfirði séu á ofanflóðahættusvæði og að gera þurfi frekara hættumat.
Meta þurfi hvort flóðbylgja ógni laxeldismannvirkjum
„Það byggir á því að slíkt mat hefur ekki verið gert gagnvart þeim möguleika að ofanflóð falli og ógni laxeldismannvirkjum, beint eða óbeint vegna flóðbylgju, svo af hlytist umhverfisslys vegna risavaxinnar slysasleppingar, mengunar, hættu fyrir starfsmenn eða annarra ófyrirséðra afleiðinga. Með hliðsjón af þessu beinir Heimastjórn Seyðisfjarðar því til sveitarstjórnar að vekja athygli leyfisveitenda á þessu mati Veðurstofu Íslands og óska eftir frekara hættumati, áður en tekin verður afstaða til leyfisveitingar,“ segir í tillögu Jóns Halldórs sem var felld með tveimur atkvæðum meirihlutans í heimastjórninni.
Grundvöllur undir atvinnulíf á stóru svæði hafi brostið
Í bókun sem Jón Halldór lagði fram í kjölfarið segir að undanfarin ár hafi náttúruvá haft haft mikil áhrif á athafnalíf og mannlíf á Seyðisfirði. Grundvöllur undir atvinnulíf á stóru svæði í bænum hafi brostið og mat á ofanflóðahættu takmarki svigrúm til íbúðabyggðar. Sveitarstjórn og opinberir aðilar séu að vinna að ofanflóðavörnum beggja megin fjarðar til að verja byggðina.
Vilji ekki taka umræðuna þegar það er of seint,
„Nú blasa við ný atvinnutækifæri á Seyðisfirði sem margir binda vonir sínar við, í formi laxeldis í sjó í Seyðisfirði. Mikilvægt er að faglega sé staðið að þessari uppbyggingu og í dag væri aldrei hægt að fá leyfi fyrir nýrri atvinnustarfsemi á landi með 6-10 nýjum störfum á skilgreindu ofanflóðahættusvæði,“ segir í bókun Jóns Halldórs sem kveðst því skora á sveitarstjórn að kanna ítarlega hvort ástæða sé til að staldra við.
„Nýlega hafa verið umræður um ábyrgð sveitarstjórnar annars staðar á Íslandi, sem brást ekki við upplýsingum um ofanflóðahættu fyrir allmörgum árum. Við viljum ekki taka slíka umræðu, þegar það er of seint,“ segir í bókun Jóns Halldórs Guðmundssonar.