Rekstur evrópska fiskiskipaflotans batnaði umtalsvert á árinu 2014 samkvæmt nýrri skýrslu frá Evrópusambandinu um hag fiskveiða. Frá þessu er greint á fiskifréttavef ESB .

Árið 2008 var fiskiskipaflotinn rekinn með tapi en hann hefur smám saman skilað betri afkomu og árið 2014 varð methagnaður, eða 770 milljónir evra í hreinan hagnað (um 94 milljarðar ISK). Árið 2013 var hreinn hagnaður 500 milljónir evra (61 milljarður ISK). Heildartekjur ESB-flotans var 7,2 milljarðar evra (874 milljarðar ISK) árið 2014, sem er 4,7% aukning frá árinu áður.

Í skýrslunni er þessi árangur þakkaður því að sjálfbærum fisktegundum hafi fjölgað og þar af leiðandi hafi kvótar aukist. Einnig hafi fiskverð hækkað. Loks hafi fiskiskipum fækkað með tilheyrandi hagræðingu.