Aldrei fyrr í sögunni hafa Norðmenn flutt út meira af þorski, ufsa, ýsu og öðrum hvítfiski en á árinu 2014, hvort sem útflutningurinn er metinn í tonnum eða verðmætum. Þetta kemur fram á vef samtaka norskra útvegsmanna.
Alls fluttu Norðmenn út hvítfisk fyrir um 12 milljarða króna á árinu 2014 (um 200 milljarða ISK). Þetta er 20% aukning í verðmætum frá fyrra ári. Flutt voru út 442 þúsund tonn sem er 3% aukning frá árinu 2013.
Þorskurinn vegur þyngst í þessum tölum og þar er um metútflutning að ræða, hvort sem litið er á ferskar afurðir, frystar eða þurrkaðan saltfisk (klippfisk). Í heild voru fluttar út þorskafurðir fyrir 7,2 milljarða (um 120 milljarða ISK), sem er 25% aukning frá árinu 2013. Í tonnum talið jókst þorskútflutningur um 13% og fór í 260 þúsund tonn.
Norðmenn fluttu út 99 þúsund tonn af þurrkuðum saltfiski fyrir 3,7 milljarða (um 62 milljarða ISK). Þar af er þorskur um 1,9 milljarðar.
Útflutningur á saltfiski, heilum og í flökum, var 909 milljónir (15 milljarðar ISK). Portúgal keypti 70% af öllum saltfiski Norðmanna.
Norðmenn fluttu út skreið og skreiðarafurðir fyrir 899 milljónir (15 milljarða ISK). Í heild nam útflutningurinn rúmum 18 þúsund tonnum.
Útflutningur á frystum hvítfiski jókst mikið og nam 4,4 milljörðum (um 73 milljörðum ISK). Mest varð aukningin í heilfrystum þorski, ýsu og karfa.
Útflutningur á ferskur hvítfiskafurðum nam 2,4 milljörðum (um 40 milljörðum ISK) og var alls 103.959 tonn.