Netarallið í ár skilaði tæpum 800 tonnum af þorski og er það metafli í rallinu frá upphafi. Skilyrði í rallinu voru yfirleitt hagstæð ef frá er talið slæmt veður sem olli nokkrum frátöfum, að því er Valur Bogason, verkefnisstjóri í rallinu, segir í samtali við nýjustu Fiskifréttir.

Netarallinu lauk um miðja síðustu viku en það hófst um mánaðamótin mars/apríl. Sex bátar tóku þátt í rallinu á sex svæðum. Netarallið hefur verið við lýði frá árinu 1996. Mjög góður afli var á flestum svæðum að þessu sinni og aflamet var slegið í Faxaflóa. Þar veiddust um 225 tonn af þorski. Kanturinn við Vestmanneyjar er í raun eina svæðið í öllu rallinu hringinn í kringum landið sem sker sig úr með slakan afla.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.