Það sem af er ári hafa íslensk skip veitt 46.965 tonn af kolmunna. Á sama tíma í fyrra var aflinn hins vegar aðeins 12.427 tonn, að því er fram kemur í frétt á vef Fiskistofu um veiðar úr deilistofnum í janúar og febrúar.
Mestur afli á yfirstandandi vertíð er veiddur í lögsögu Færeyja eða 43.169 tonn og í íslenskri lögsögu 2.423 tonn. Aflahæsta skipið í kolmunna það sem af er vertíðinni er Venus NS-150 með 8.053 tonn. Næst kemur Börkur NK-122 með 6.014 tonn og Jón Kjartansson SU-111 með 5.715 tonn.
Þegar horft er til aflabragða í kolmunna á ofangreindu tímabili þá er hann meiri en nokkru sinni áður.